141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kjaramál hjúkrunarfræðinga.

[10:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höfum væntanlega öll fylgst með, þingmenn ásamt flestum landsmönnum, þeirri umræðu sem hefur orðið um hjúkrunarfræðinga og stöðu þeirra, m.a. á Landspítalanum. Margir hafa miklar áhyggjur af stöðunni, bæði þeir sem þar starfa og eins fólkið sem þarf að nota þjónustu spítala, hvort sem er Landspítalans eða annarra. Við höfum líka séð og heyrt gagnrýni á að hluti af þeim mótmælum sem hjúkrunarfræðingar eru með á lofti sé vegna þess að ekki hefur verið endurnýjaður stofnanasamningur eins og gert er ráð fyrir í kjarasamningum.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að veita það fjármagn sem þarf til þess. Mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um stöðuna eins og hún er nákvæmlega á þessum tímapunkti varðandi hjúkrunarfræðingana, hvort verið sé að leita lausna og þá í hvaða farvegi þær eru og hvaða hugmynd ráðherrann hefur uppi um þær. Ég held að það sé mikilvægt að hraða þessu máli gríðarlega mikið áður en við missum fleira af þessu góða fólki okkar í önnur störf eða hreinlega af landi brott. Þess vegna ber ég þessar spurningar núna upp við hæstv. ráðherra.

Við hljótum að velta fyrir okkur hvort það sé verið að ýta vandanum á undan sér með því að taka ekki á honum strax. Öllum er kunnugt um að grunndagvinnulaun nýútskrifaðs hjúkrunarfræðings eru undir 300 þús. kr. á mánuði, eitthvað í kringum 280 þús. kr. ef ég veit rétt. Þar af leiðandi er ósköp eðlilegt að það fari að styttast í að þetta ágæta fólk geti ekki beðið lengur eftir lausnum. Þess vegna hljótum við að óska eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir þessu og þeim lausnum sem hann sér á málinu.