141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við búum í landi þar sem oft er talað um jafnrétti, jafnrétti kynjanna og um það að fólk eigi að hafa jöfn tækifæri til að geta aflað sér tekna og lífsviðurværis að eigin frumkvæði. Ég trúi því að einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi séu bestu leiðirnar til þess að skapa aukinn hagvöxt og bæta lífskjörin í landinu.

Við höfum í gegnum tíðina í þessum ræðustól oft fjallað um launamun kynjanna og við höfum oft fjallað um að hægt gangi að leiðrétta kynbundinn launamun. Og nú þegar ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur setið hér í fjögur ár tel ég rétt að vekja athygli á því að lítið hefur gengið að leiðrétta þennan mun.

Ef við skoðum nýjustu könnunina sem SFR hefur gert og rýnum í niðurstöður hennar er ljóst að ekki hafa komið til þær aðgerðir af hálfu hins opinbera sem leiða til þess að veruleg breyting verði í þessum efnum.

Menn hafa miklar væntingar til þess að eitthvað breytist í næstu kjarasamningagerð. Það er 10–15% launamunur á milli kynjanna á opinberum vinnumarkaði. Það eru litlar breytingar sem verða og það er alveg ljóst að mínu mati að ekki er nóg að segjast vilja breytingar, menn þurfa líka að láta verkin tala. Það er ekki nóg að segjast vilja breyta þessu, það þarf að sýna það í verki. Þess vegna er það spurning mín til hæstv. ráðherra með hvaða hætti ráðherrann ætlar að beita sér í þessu máli. Og þá er ég ekki bara að tala um að menn vilji breyta þessu heldur sýni fram á að eitthvert plan sé um það að grípa til aðgerða.

Það eru til aðilar sem hafa náð árangri í að breyta þessu og bendi ég þar til dæmis á sveitarfélagið Reykjanesbæ en fram kemur á heimasíðu þess að enginn kynbundinn launamunur er þar, unnið hafi verið markvisst að því að útrýma honum og það hafi tekist vel. Ég vil koma því á framfæri að Reykjanesbær og hið ágæta starfsfólk sem þar vinnur er boðið og búið til þess að aðstoða ríkisstjórnina við að grípa til aðgerða og sýna henni hvernig hægt er að fara í það verkefni. Þetta er stórt verkefni, þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og við þurfum að leggja á það áherslu í verki, ekki bara í orðum.

Könnunin hjá SFR segir okkur að karlar eru launahærri í starfsgreinum sem kenndar hafa verið við hefðbundin kvennastörf. 39% kvenna í því félagi, stéttarfélagi ríkisstarfsmanna, vinna í heilbrigðis- og félagsþjónustu en þar eru aðeins 25% karla. Þarna erum við að tala um hin hefðbundnu kvennastörf. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það. Heildarlaun karla í heilbrigðisþjónustunni eru 24% hærri en kvenna. Þeir vinna þremur tímum lengur en grunnlaunin eru einnig hærri. Er það eðlilegt? Í félagsþjónustunni hafa konur 13% lægri heildarlaun og grunnlaun karla eru einnig hærri. Þá spyr ég: Ef við erum að tala um að launamunur sé meiri hjá hinum hefðbundnu kvennastéttum, hverjar eru þá skýringarnar á því? Og til hvaða aðgerða hefur núverandi ríkisstjórn gripið til að breyta þessu? Ég ítreka að ég er ekki að tala um að lýsa því yfir á opinberum vettvangi að það eigi að laga þetta, heldur spyr ég til hvaða verka hæstv. ráðherra getur vísað að gripið hafi verið til til að breyta þessu. Hvað mun fylgja í kjölfarið á þessari könnun? Er einhverra aðgerða að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Ég sé það í fjölmiðlum að verið er að mynda einhverja starfshópa sem eiga að setjast yfir þetta, skoða og rannsaka en það er ekki nóg. Tölurnar liggja fyrir. Þær hafa legið fyrir í mörg ár. Það dugar ekki þótt ágætt sé að standa hér og spjalla um þetta mál, við verðum líka að segja hvað við ætlum að gera.

Mjög athyglisverðar staðreyndir koma fram í könnuninni og ég vona að flestallir þingmenn séu búnir að kynna sér hvað í henni felst. Það kemur meðal annars fram að launamunur vex með starfsaldri, munur á heildarlaunum milli karla og kvenna sé minnstur meðal fólks sem er með skemmstan starfsaldur. Það er vonandi vísbending um að þetta lagist með tímanum. En ætlum við að bíða í 50–60 ár eftir að þetta verði orðið jafnt? Er það það sem á að gera? Er það planið?

Ég verð að segja að ég hef ekki þá framtíðarsýn fyrir stúlkur og drengi þessa lands að það eigi að vera sjálfsagt mál að óútskýrður launamunur sé milli kynjanna. Ég vil að bæði kynin, öll börn sem hér alast upp búi við þær aðstæður og hafi þá framtíðarsýn að það skipti máli að leggja sig fram, það skipti ekki máli hvors kyns þú ert þegar kemur að því að ræða um launakjör.