141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:17]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu sem mér finnst mjög mikilvæg. Samkvæmt tölum er 13,1% kynbundinn launamunur á Íslandi og þá erum við að tala um laun fyrir sömu vinnu. Það er auðvitað óþolandi að hefðbundnar kvennastéttir eru minna metnar í launum og það er óþolandi að sjá að þær sitja eftir þegar laun hækka í samfélaginu, kannski sérstaklega hjá hinu opinbera.

Frummælandi hér í dag nefndi dæmi frá Reykjanesbæ þar sem bæjarfélagið hefur útrýmt kynbundnum launamun. Það var gert með því að fara inn í launabókhaldið og skoða bara hvað hver fengi í laun. Þannig verður að gera þetta, menn verða að hafa kjark í að fara bara beint í tölurnar og sjá af hverju karlinn fær hærri laun en konan. Þetta þarf að laga.

Það er erfiðara að ráðast á þann vanda sem tengist samfélagslegu gildismati á hefðbundnum kvennastörfum, svo sem umönnunarstörfum og slíku, og svo hefðbundnum karlastörfum sem kannski frekar tengjast framkvæmdum og fjármálum. Það er verkefni okkar allra að breyta því gildismati.