141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Kynbundið ofbeldi og kynbundinn launamunur eru alvarlegustu birtingarmyndir misréttis gegn konum. Hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir hélt hér frábæra ræðu þar sem hún fór yfir andstyggilegar afleiðingar slíks kerfis og mikilvægi þess að uppræta það.

Ég fagna áætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt hefur verið um jafnlaunaátak. Þá er sérstaklega mikilvægt að byrja eigi á stóru kvennastéttunum í heilbrigðiskerfinu sem hafa borið þetta samfélag uppi frá hruni. Hv. þingmaður sem hóf þessa umræðu vildi ræða könnun SFR, og hver er staðan þar? Við vitum að konur sækja frekari menntun en karlar, konum fjölgar innan háskólans í raungreinum en körlum fjölgar ekki hlutfallslega neitt í líkingu við það í menntavísindum og hefðbundnum kvennagreinum innan heilbrigðisvísinda. Þrátt fyrir aukna menntun kvenna vinna karlar lengri vinnutíma en konur og þær eru frekar í hlutastörfum. Kynbundinn launamunur virðist standa í stað og karlar eru miklu líklegri en konur til að fá aukagreiðslur og hlunnindi.

Jákvæðu fréttirnar í launakönnun SFR eru að fleiri eru nú ánægðir með laun sín en áður þótt hlutfallið sé of lágt, kynbundinn launamunur er minni hjá yngsta starfsfólkinu og vinnutími karla í fullu starfi styttist og er nú fjórum klukkustundum lengri en kvenna.

Þessi könnun er enn ein dapurleg sönnun þess að kynbundinn launamunur er staðföst staðreynd í okkar kynjaða samfélagi. Við þurfum að beita öllum ráðum og sýna mikla festu til að tryggja að vinnuframlag kvenna sé metið til jafns við karla.

Nú þurfa sjónir að beinast að þeim sem stjórna ríkisstofnunum (Forseti hringir.) og ráðuneytum og gera þá sjálfsögðu kröfu að þau fari að lögum og mismuni ekki starfsfólki sínu á grundvelli kynferðis. (Forseti hringir.) Konur geta menntað sig, styrkt sjálfsmynd sína, breytt starfsvali og gert kröfur, en það dugir ekki til ef stjórnendur stofnana komast upp með að mismuna starfsfólki sínu.