141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að hefja hana. Það er mjög athyglisvert hverju fram vindur í þessari umræðu því að hæstv. ráðherra sem nú fer með fjármál ríkisins, Katrín Júlíusdóttir, telur að hið svokallaða jafnlaunaátak sem verið var að hrinda af stað eigi að breyta öllu.

Ég minni á það að hæstv. forsætisráðherra hefur löngum talað fyrir jafnrétti kynjanna, bæði hvað varðar kynbundinn launamun og önnur jafnréttismál. Nú hefur hæstv. ráðherra verið í ríkisstjórn í bráðum fimm ár, farið hér fram með kynjaða hagstjórn, kynjuð fjárlög og fleira má tína til, en árangurinn er enginn. Komið hefur fram í deilum hjúkrunarfræðinga við ríkið að t.d. sambærileg menntun og hjúkrunarfræðingar eru með er metin 20% meira í Stjórnarráðinu sjálfu. Það eru mjög alvarleg tíðindi að starfsmenn Stjórnarráðsins sem hafa sambærilega menntun og hjúkrunarfræðingar fái 20% meira fyrir sambærileg störf. Ég lít það mjög alvarlegum augum því að hver stjórnar Stjórnarráðinu? Það er ríkisstjórnin sjálf.

Ég sé ekki að einhver vilji sé til þess að breyta þessu þó að skrifað sé undir samkomulög og yfirlýsingar vegna þess að svo virðist sem láréttur skakki sé innbyggður í kerfið og það stafar kannski af því að flestir yfirmenn ríkisstofnana eru karlmenn. Það skyldi þó ekki vera?

Það er slæmt að ástandið sé svona hér á landi en þau átök sem ríkisstjórnin boðar — ég gef ansi lítið (Forseti hringir.) fyrir slíkar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í ljósi reynslunnar. Ég minni á að fjölmennar kvennastéttir berjast hér fyrir launabótum (Forseti hringir.) og það er einungis með því að hækka grunnlaunin (Forseti hringir.) sem einhver árangur næst.