141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[11:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum enn og aftur að fara að samþykkja innleiðingu tilskipunar ESB um fjármálamarkaðinn. Þetta er tilskipun sem meðal annars leyfir erlendum rekstraraðila að stofna og reka verðbréfasjóði hér á landi. Auk þess er verið að bæta lagarammann í kringum samruna annars vegar innlendra verðbréfasjóða og hins vegar innlendra og erlendra verðbréfasjóða.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að frumvarpið fari aftur í nefnd milli 2. og 3. umr. og þar verði skoðað á hvern hátt þessi tilskipun ógnar gjaldeyrishöftunum eða gæti verið leið vogunarsjóða til að stofna verðbréfasjóði hér á landi og koma fjármagni sínu út úr hagkerfinu í gegnum greiðslur þessara verðbréfasjóða. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Eftirlitsaðilar telja ekki að vogunarsjóðir séu vandamál á fjármálamarkaði vegna þess að vogunarsjóðir eru ekki til í íslenskum lögum um fjármálamarkaði.