141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

80. mál
[11:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það að geta átt samskipti við annað fólk er eitt það mikilvægasta sem okkur er gefið. Til þess að geta þjónustað þau börn sem eiga við tal- og málþroskaraskanir að etja er nauðsynlegt að umhverfið sem við bjóðum upp á sé skýrt, það sé skýrt hver beri ábyrgð og ljóst að við höldum vel utan um þennan hóp. Það eru 300–700 börn í hverjum árgangi sem þurfa á aðstoð að halda vegna tal- og málþroskaröskunar og sú skýrsla sem menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir og fékk frá menntamálaráðherra á sínum tíma segir okkur að við þjónustum þennan hóp ekki nægilega vel.

Þessi þingsályktunartillaga hér tryggir að ráðuneytið muni í samvinnu við velferðarráðherra og sveitarfélögin fara í það verkefni að gera þar bragarbót á. Ég fagna þessum degi, þetta er stórsigur fyrir okkur öll sem viljum hag þessara barna sem mestan og ég vonast til að allur þingheimur taki undir það með því að samþykkja þessa frábæru tillögu.