141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórnar, nr. 5/1998, með síðari breytingum. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka vægi persónukjörs við kosningar til sveitarstjórna og gefa kjósendum þar með meiri möguleika til að hafa áhrif á hvaða fulltrúar ná kjöri. Á undanförnum árum hafa verið uppi háværar raddir um að auka þurfi lýðræði og áhrif kjósenda við kosningar með því að taka upp persónukjör við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna.

Hugmyndin um að auka persónukjör tengist almennum sjónarmiðum um aðhald kjósenda með stjórnmálasamtökum og aukinni þátttöku kjósenda í lýðræðislegu starfi. Persónukjör er til þess fallið að styrkja lýðræðislegt umboð kjörinna fulltrúa og endurspegla óskir fleiri kjósenda. Ef stjórnmálasamtök eða önnur framboð heimiluðu persónukjör við framboð sín til sveitarstjórna gætu þau haft áhrif á þróun fulltrúalýðræðis því að kjósendur hefðu þá aukin tækifæri til að velja ákveðna fulltrúa til setu í sveitarstjórnum.

Frumvarpið og þær tillögur og útfærslur á persónukjöri sem það felur í sér voru unnar af óformlegum starfshópi á vegum innanríkisráðuneytisins. Við leituðum samstarfs við Samband íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi þaðan tók þátt í þeirri vinnu þótt leggja beri áherslu á að Samband íslenskra sveitarfélaga kemur ekki formlega að málinu þrátt fyrir það. Ég tek mjög skýrt fram að sambandið áskilur sér allan rétt til að hafa skoðun á málinu þótt fulltrúi þaðan hafi tekið þátt í þeirri vinnu. Reyndar er frumvarp af þessu tagi þverpólitískt. Innan flokkanna kunna að vera mismunandi áherslur og hið sama kann að gilda um einstaka stjórnmálaflokka, hið sama kann að gilda um einstök sveitarfélög og legg ég áherslu á það.

Starfshópurinn skoðaði sérstaklega mismunandi kerfi og aðferðir við persónukjör í öðrum norrænum ríkjum. Í þeim hópi voru meðal annars fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaða starfshópsins var að sú aðferð persónukjörs sem notuð er við sveitarstjórnar- og fylkiskosningar í Noregi sé þannig úr garði gerð að heppilegt sé að styðjast við hana í lögum um kosningar til sveitarstjórna hér á landi með það fyrir augum að auka vægi persónukjörs í kosningum. Norska persónukjörsaðferðin er bæði einföld að gerð og í framkvæmd. Helsti kostur hennar er að ekki þarf að bylta núverandi kerfi hér á landi sem kjósendur hafa búið við um langan tíma þótt vissulega þurfi að aðlaga kerfið meðal annars vegna fámennis samanborið við Noreg.

Þetta kerfi ætti því að vera hægt að innleiða hér á landi í ágætri sátt við hið pólitíska umhverfi og menningu sem hér hefur þróast á umliðnum áratugum en um leið ætti það auka lýðræðislega virkni í kosningakerfinu.

Verði frumvarpið að lögum fer kosning til sveitarstjórna fram á eftirfarandi hátt: Í fyrsta lagi greiðir kjósandi áfram atkvæði til ákveðins framboðslista eða stjórnmálaflokks. Kjósandi merkir við þann framboðslista sem hann hyggst kjósa með sama hætti og gert er í dag. Kjósandi velur hvort hann nýtir sér einnig möguleika til persónukjörs eða hvort hann ráðstafi atkvæði sínu eingöngu til ákveðins framboðslista. Með því að merkja aðeins við framboðslista eftirlætur hann öðrum kjósendum að raða á listann. Ef eingöngu er merkt við frambjóðanda eða frambjóðendur á einum lista en ekki við framboðslistann fær listinn sem frambjóðandinn er fulltrúi fyrir engu að síður flokksatkvæðið. Ef frambjóðendum af tveimur mismunandi framboðslistum er veitt persónuatkvæði en ekki er samtímis merkt við framboðslista dæmist seðillinn ógildur þar sem ekki er hægt að greina skýran vilja kjósenda. Flokkur eða listi fær alltaf atkvæði eins og er í dag.

Í öðru lagi á kjósandi kost á að greiða einstökum frambjóðendum innan þess framboðslista sem hann kýs persónulegt atkvæði sitt. Það er gert með því að krossa fyrir framan nafn eða nöfn frambjóðendanna. Engin takmörk eru á því hversu mörg persónuatkvæði leyfilegt er að veita innan þess framboðslista sem kosið er. Samanlögð persónuatkvæði hvers og eins frambjóðanda ráða því svo hver endanleg röð hans verður á listanum miðað við aðra frambjóðendur að teknu tilliti til atkvæðaálags.

Í þriðja lagi á kjósandi kost á að greiða tilteknum en þó takmörkuðum fjölda frambjóðenda á öðrum framboðslistum en þeim sem hann veitir flokksatkvæði sitt persónuatkvæði. Hvert persónuatkvæði telst viðkomandi frambjóðanda til tekna sem heilt atkvæði og er því jafngilt og þau persónuatkvæði sem hann fær frá eigin flokksmönnum. Það hefur hins þær afleiðingar að atkvæði þess framboðslista sem kosinn er skerðist við hvert persónuatkvæði sem greitt er frambjóðanda af öðrum lista. Skerðingin miðast við fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Ef fulltrúar í sveitarstjórn eru níu skerðist atkvæði listans um 1/9 hluta fyrir hvert persónuatkvæði sem greitt er frambjóðanda af öðrum lista. Atkvæðahlutarnir færast yfir á framboðslista þess frambjóðanda sem hlýtur persónuatkvæðið. Ef kjósandi í sveitarfélagi með níu fulltrúa í sveitarstjórn nýtir sér að fullu rétt sinn til að veita tveimur frambjóðendum af öðrum framboðslistum persónuatkvæði skerðist flokksatkvæðið um 2/9 hluta og færast þeir atkvæðahlutar yfir á lista þeirra frambjóðenda sem hljóta persónuatkvæðin. Ekki er leyfilegt að strika yfir eða breyta röð frambjóðenda að öðru leyti á kjörseðlinum.

Í fjórða lagi getur framboðslisti eða stjórnmálasamtök ákveðið að veita tilteknum fjölda efstu manna atkvæðaálag. Með því er veitt ákveðið forskot í persónukjöri til tiltekinna einstaklinga sem framboðslistinn vill tryggja kjör í sveitarstjórn. Sú útfærsla sem lögð er til með frumvarpinu gerir ráð fyrir því að atkvæðaálag verði hið sama fyrir þá sem slíkt álag fá eða 25% af heildaratkvæðum viðkomandi framboðslista og nýtist það þeim sem forskot við uppgjör persónukjörs og við endanlega röðun á listann. Nöfn þeirra sem fá atkvæðaálag frá þeim sem standa að framboði listans skulu standa efst á framboðslista og vera feitletruð. Sú leið veitir flokknum svigrúm til að velja frambjóðendur með tilliti til kynjasjónarmiða, búsetu, aldurs og svo framvegis. Fjöldi þeirra sem heimilt er að veita atkvæðaálag á hverjum lista ræðst af fjölda í sveitarstjórn. Fyrirkomulagið er valkvætt fyrir framboðslista og þeir listar sem ekki velja að veita slíkt atkvæðaálag fela það alfarið í hendur kjósenda að raða frambjóðendum í sæti.

Þá er með frumvarpinu lagt til að framboðsfrestur verði lengdur úr þremur vikum í sjö svo tryggja megi að kjósendur sem greiða atkvæði utan kjörfundar hafi upplýsingar um það hverjir eru í framboði. Kjósendur sem greiða atkvæði utan kjörfundar geta ekki nýtt sér rétt sinn til að greiða einstökum frambjóðendum persónuatkvæði nema fyrir liggi hverjir eru í kjöri þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst. Til samræmis við lengdan framboðsfrest er lagt til að tími til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar verði styttur úr átta vikum í fimm.

Loks er í frumvarpinu ákvæði sem tryggir að kjörseðill verði ekki metinn ógildur vegna þess eins að kjósanda hafi láðst að krossa eða merkja framan við listabókstaf. Jafnframt á ákvæðið að tryggja að atkvæði kjósenda teljist greitt ákveðnum lista enda þótt kjósandanum hafi orðið það á að greiða fleiri frambjóðendum af öðrum listum persónuatkvæði en heimilt er enda séu ekki aðrir gallar á.

Kosningar til sveitarstjórna verða áfram annaðhvort bundnar hlutfallskosningar eða óbundnar kosningar. Breytingin yrði fyrst og fremst sú að kjósendum við bundnar hlutfallskosningar gæfist kostur á að veita einstökum frambjóðendur persónuatkvæði. Kjósendur munu því að miklu leyti ákvarða röð efstu manna af því að samanlögð persónuatkvæði hvers frambjóðanda ákvarða endanlega röð hans á listanum.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Hins vegar er gert ráð fyrir að kostnaðarauki sveitarfélaganna geti orðið um 32 milljónir króna, samanber sérstakt kostnaðarmat þar að lútandi. Því miður láðist að prenta kostnaðarmat gagnvart sveitarfélögunum með þingskjalinu. Það hefur hins vegar verið birt á heimasíðu ráðuneytisins og því verður jafnframt komið á framfæri við þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Á því er beðist velvirðingar.

Hér er um mikilvægt skref að ræða í þá átt að auka vægi kjósenda við val á frambjóðendum sem treystir enn betur hið lýðræðislega umboð sem kjörnir fulltrúar fá til setu í sveitarstjórnum. Það fyrirkomulag mætti síðan færa yfir á alþingiskosningar ef vilji stendur til, en það yrði þá næsta skref ef við tökum það skref með þessu.

Lagt er til að frumvarpinu verði vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr.