141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á kannski ekki mikið erindi aftur í ræðustól í andsvar en geri það af kurteisi við hv. þingmann. Hann beindi undir lokin spurningu til mín. Ég tel eðlilegt að þau sjónarmið sem hv. þingmaður viðraði komi til umfjöllunar í nefndinni sem fær málið til skoðunar og síðan í þingsal. Að öðru leyti vil ég ekki lýsa mínum eigin skoðunum hvað þetta varðar sérstaklega, en það er mjög mikilvægt að fá sjónarmið af þessu tagi fram.

Það sem er að mínum dómi mikilvægt í þessum breytingum er að breyta neikvæðri aðkomu kjósenda að röðun á lista, sem nú er fólgin í því að strika út nöfn, yfir í jákvæða nálgun, að geta raðað fólki á jákvæðan hátt á listann við kosningarnar sjálfar.