141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ræðuna og hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Málið er um margt spennandi, ég tek undir það, og alveg þess virði að ræða það innan sveitarstjórnarstigsins og kanna hvort sveitarstjórnir almennt og þá hugsanlega hvaða sveitarstjórnir eru tilbúnar að reyna slíkt í komandi kosningum 2014.

En ég er hugsi yfir einu. Ef við erum almennt að færa meira vald til kjósendanna, sem er af hinu góða, það er gert í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, það er líka gert í prófkjörum ýmissa annarra flokka sem og á þröngum kjördæmisfundum hjá öðrum flokkum, af hverju felum við þá stjórnmálasamtökum að ákveða hverjir eiga að fá atkvæðaálagið? Af hverju er ekki einfaldlega ferningur fyrir framan alla þá sem eru í framboði og það er þá kjósandans að ákveða þann lista sem hann kýs og þá sem hann vill að ráði för? Sömu sögu er að segja um kjósandann sem ætlar sér að veita einhverjum á öðrum lista persónuálag, af hverju ekki hverjum sem er? Ef við erum að færa vald til kjósandans með þessum hætti á annað borð, af hverju eru kjósendur þá ekki færir um að ákveða það sjálfir hverjum þeir vilja veita persónuálagið í stað þess að stjórnmálasamtökin ákveði það fyrir fram hverjir af frambjóðendum fái persónuálag? Mig langar að heyra skoðun hv. þm. Lúðvíks Geirssonar á þessari nálgun minni.