141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, taka skrefin hægt og bítandi, vissulega, en það er engu að síður forræðishyggja. Við ákveðum að færa kjósandanum meira val en hann hefur nú í kosningalögum en með þessu frumvarpi óttumst við samt sem áður kjósandann, að hann hafi of sterkar persónulegar skoðanir sem eru hugsanlega í andstöðu við það sem stjórnmálasamtök eða flokkar hafa ákveðið fyrir lista sína fyrir tilteknar kosningar.

Ég legg nálgun mína inn í umræðuna og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar — nei, umhverfis- og samgöngunefndar væntanlega, sem sér um sveitarstjórnarmál. (Innanrrh.: Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.) Er það? Þær eru orðnar dálítið flóknar. Er það stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta til skoðunar? Ég þakka hæstv. ráðherra ábendinguna. Ég legg þá einfaldlega til, virðulegur forseti, að hv. nefnd skoði hvort kjósandinn eigi ekki að hafa það val umfram stjórnmálasamtökin að settur verði ferningur um persónuálag fyrir hvern og einn frambjóðanda og að honum sé því ekki skylt að taka tillit til þess sem stjórnmálasamtökin hafa ákveðið, þ.e. að tilteknir fimm eða sex, eða tveir eða þrír eigi að fá persónuálagið, heldur sé það kjósandans að velja hvort heldur er í þeim flokki eða stjórnmálasamtökum sem hann kýs, sem og þegar hann ákveður hverjum frambjóðenda annarra flokka hann vill veita sérstakan stuðning, valið sé hans en ekki stjórnmálasamtakanna. Ég legg þessa nálgun mína inn til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari skoðunar vegna þess að ég hef tröllatrú á því að kjósendur séu fullfærir um að ákveða hvaða frambjóðandi eigi að fá 25% eða 30% persónuálag án aðkomu stjórnmálasamtaka, þeir þurfi ekki leiðbeiningu flokka eða framboða til þess.