141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

stimpilgjald.

294. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum, afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings.

Þetta frumvarp var lagt fram á haustþingi í október 2012 og er að koma til 1. umr. í lok janúar. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frumvarpi eru þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eins og hann var þegar frumvarpið var lagt fram, en þá sat Arnbjörg Sveinsdóttir á þingi fyrir Tryggva Þór Herbertsson og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir fyrir Einar K. Guðfinnsson.

1. gr. þessa frumvarps hljóðar svo:

„Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. a laganna:

a. Orðið „fyrstu“ í 1. mgr. fellur brott.

b. 2. mgr. orðast svo: Skilyrði niðurfellingar skv. 1. mgr. eru að kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, sé þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er og að lánsfjárhæð sú sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skuli einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.

c. 4. og 5. mgr. falla brott.

d. Í stað orðanna „séu uppfyllt“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: sé uppfyllt.

e. Í stað orðanna „skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: skal liggja fyrir afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild vegna fasteignar sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.

f. A–c-liðir 6. mgr. falla brott.

g. Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. skal, þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, að hluta eða öllu leyti, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum.“

2. gr.:

„Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.“

3. gr.:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013 og taka til skjala sem eru gefin út frá þeim tíma.“

Virðulegur forseti. Þess ber að geta að þetta frumvarp er lagt fram í október 2012 þannig að 3. gr. um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2013 stenst ekki og verður því hv. efnahags- og viðskiptanefnd að íhuga að breyta gildistöku laganna afgreiði hún málið úr nefnd. Ég vil þó geta þess að í gildandi lögum nr. 36/1978 er kveðið á um tímabundið gildissvið þeirrar reglu að stimpilgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð verði undanþegin stimpilgjaldi. Sú regla féll úr gildi þann 31. desember 2012 og þá er það væntanlega þannig að þeir sem hafa keypt íbúðir í janúar 2013 hafa þurft að greiða fullt stimpilgjald hvort sem um var að ræða kaup á fyrstu íbúð eða ekki vegna þess að engin breyting hefur komið fram á gildandi lögum fram til þessa.

Frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi. Það var þá á þskj. 654, mál. nr. 415 og nú er það lagt fram að nýju lítið breytt. Með frumvarpinu eru tekin fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda, þessa óverjandi skatts sem lagður er á fólk og fyrirtæki sem taka lán í formi veðskuldabréfa. Í október árið 2012 var þess getið í blöðum, m.a. í Fréttablaðinu , að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hygðist afnema stimpilgjöld vegna athugasemdar ESA sem telur þau neytendum í óhag. Þá var boðað frumvarp sem átti að koma fram um miðjan október en við erum nú stödd hér 24. janúar og enn bólar ekkert á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um afnám stimpilgjalda, hvorki í skrefum né að fullu eins og athugasemdir ESA segja til um. Þetta er til marks því að í þessum sal hefur margoft verið talað um að í raun sé ríkisstjórnin sjálf lítið sem ekkert að gera fyrir skuldug heimili í landinu, en eigni sér ýmislegt sem falli til vegna dómsmála einstaklinga eða fyrirtækja vegna gengistryggða lána sem dæmd voru ólögleg í Hæstarétti.

Ég vil taka þetta sérstaklega fram því að ég fór hér í umræðu um störf þingsins í október þegar lá fyrir að ríkisstjórnin hygðist koma fram með frumvarp í þá veru að afnema eða breyta frumvarpi til laga um stimpilgjöld, en nú í janúar höfum við ekkert séð í þeim efnum. Ljóst var þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt frá Alþingi í desember að ekki stóð til að breyta þessum óverjandi skatti á nokkurn hátt því meiri hlutinn telur sig geta innheimt allt að 4 milljarða í stimpilgjöldum árið 2013 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Ég sé að formaður efnahags- og viðskiptanefndar er kominn í salinn og ég fagna því.

Eins og ég sagði þá eru fyrstu skrefin í afnámi stimipilgjalda tekin með þessu frumvarpi. Lagt er til að stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði afnumin, ekki bara á fyrstu íbúð heldur almennt afnumin. Að mati flutningsmanna hníga augljós rök að því að auðvelda einstaklingum að koma sér þaki yfir höfuðið og við teljum að ekki eigi að nýta slík viðskipti til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Nú munu sjálfsagt ýmsir ræða það að sá flokkur sem ég sit á þingi fyrir hafi ráðið hér ríkjum frá 1991–2007 og lítið beitt sér í þessum málum. Það er svo, en það breytir því ekki að sú sem hér stendur telur að þessi breyting þurfi að eiga sér stað og meðflutningsmenn að þessu frumvarpi einnig. Í 35. gr. a í lögunum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er nú kveðið á um að kaupandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota skuli undanþeginn stimpilgjaldi við fyrstu kaup. Ég held að þessi undanþága hafi runnið út 31. desember 2012. Við teljum rétt að víkka út það ákvæði þannig að það taki til allra almennra kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota, ég ítreka, íbúðarhúsnæði til eigin nota. Ég tel að þetta sé einfaldlega einstaklingum til hagsbóta og að þetta auðveldi mörgum að breyta þeim lánum sem þeir eru með í dag, þurfi þeir ekki að greiða það stimpilgjald sem við erum að ræða og kem að því síðar.

Þó er lagt til að áfram þurfi það skilyrði að vera uppfyllt að kaupandi íbúðarhúsnæðis og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali sé þinglýstur eigandi a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er. Jafnframt, og það er ekki síður mikilvægt, er lagt til að endurfjármögnun lána vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi, en í gildandi lögum er kveðið á um tímabundið gildissvið þessarar reglu, þ.e. að hún gildi til 31. desember 2012. Að endurfjármögnun lána verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi telja flutningsmenn afar mikilvægt á þeim tímum sem við erum nú á, bæði þegar bjóðast óverðtryggð lán og einnig þegar mismunandi fjármálastofnanir bjóða ólík tilboð, ef við megum segja svo, fyrir einstaklinga til að skuldbreyta lánum sínum. Þegar eru margir sem leita leiða til skuldbreytinga og íhuga að breyta úr verðtryggðu í óverðtryggt. Eðlilegt er að fólk hafi tækifæri til að skoða tilboð frá fjármálafyrirtækjum og beina viðskiptum sínum þangað sem þeir telja að kjörin bjóðist best, en í dag stendur stimpilgjaldið í vegi fyrir því. Þess vegna eru lagðar til breytingar á 35. gr. a þessu til samræmis.

Af veðskuldabréfum og tryggingabréfum, þegar skuld ber vexti, ber að greiða 1,5% stimpilgjald af fjárhæð bréfs. Af afsölum, kaupsamningum og öðrum yfirfærslugjörningum um fasteign greiðist 0,4% stimpilgjald af fasteignamati eignar að lóðaréttindum eignar meðtöldum. Það er því ljóst að afnám þessara gjalda, sem geta muni umtalsverðum fjárhæðum, er til augljósra hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd líti þetta mál jákvæðum augum og til hagsbóta fyrir neytendur, fólkið í landinu og skuldara í eigin húsnæði sem hugsanlega vilja skuldbreyta lánum sínum með einum eða öðrum hætti.

Ég ítreka að í frumvarpinu er lagt til að gildistakan verði 1. janúar 2013 og gildi um skjöl sem gefin eru út á þeim tíma. Það er ljóst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að sjálfsögðu að breyta dagsetningu gildistöku þessara laga. Ég segi þegar þau verða að lögum því ég trúi ekki að hv. efnahags- og viðskiptanefnd sé ekki reiðubúin í þessar breytingar til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Hún gæti hugsanlega horft til þess að gildistakan verði 1. apríl 2013. Það er þá hæfilegur tími fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kanna málið, kalla inn umsóknir, ræða málið og bera það síðan undir Alþingi.

Samhliða er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum falli brott, þar sem kveðið er á um tímabundið gildissvið sambærilegs ákvæðis um að endurfjármögnun lána verði undanþegið stimpilgjaldi. Ég ítreka að þetta er mikilvægt og að þetta bráðabirgðaákvæði gilti til 31. desember 2012, því hefur mér vitanlega ekki verið breytt. Flutningsmenn telja mikilvægt að þessi regla verði varanleg og gildi um fasteignaveðbréf sem koma í stað eldra bréfs að hluta eða öllu leyti. Ég held að það sé nokkuð skýrt hvað fyrir flutningsmönnum vakir með þessum breytingum á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar og ég treysti því að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sitji einstaklingar sem eru tilbúnir að breyta lögunum frá 1978 eins og hér er lagt til. Það er til hagsbóta fyrir neytendur og til þess að koma í hægum skrefum til móts við athugasemdir ESA um að stimpilgjald eins og það er innheimt hér á landi sé í andstöðu við það sem ESA hefur kveðið upp um.