141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

stimpilgjald.

294. mál
[13:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals er rétt að taka fram að sjaldan eða aldrei í sögu Íslands hafa skattar verið hærri en í tíð Sjálfstæðisflokksins hvort sem mælt er í dollurum, evrum, sambærilegu verðlagi eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Þó að einstaka skattstofnar hafi verið afnumdir var öðrum bara haldið þess hærri í staðinn.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni, 1. flutningsmanni þess máls sem hér er til umræðu, kærlega fyrir flutning þess. Það er nú þannig að jörðin snýst og frá því að málið var flutt 24. október sl. hafa orðið nokkrar breytingar í þessu umhverfi í tengslum við samþykkt á ráðstöfunum í ríkisfjármálum úr efnahags- og viðskiptanefnd í desembermánuði sl. Þá var tekið á tveimur þáttum sem nefndir eru í þessu frumvarpi, annars vegar því að endurfjármögnun að hluta er jafnframt undanþegin stimpilgjaldi en ekki aðeins endurfjármögnun í heild og hins vegar á öðru atriði sem laut að því að það ákvæði var, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, tímabundið til 31. desember 2012. Það var tillaga Stjórnarráðsins að framlengja það sem tímabundið ákvæði en niðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar var að gera ákvæðið varanlegt og það er nú varanlegt þannig að þeim áföngum er náð og góð samstaða um það í nefndinni. Ég þakka hv. þingmanni og öðrum flutningsmönnum fyrir að hafa vakið athygli á þeim atriðum.

Þriðja atriðið er að þegar ég kann að kaupa mér aðra íbúð einhvern tíma seinna á lífsleiðinni verð ég undanþeginn stimpilgjöldum. Ég held að það sé út af fyrir sig eftirsóknarvert að afnema þá skattlagningu í framtíðinni en meðan ríkissjóður er rekinn með tapi og við söfnum skuldum á komandi kynslóðir held ég að það sé ekki svigrúm til að taka það skref núna þótt ég styðji það efnislega.