141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

stimpilgjald.

294. mál
[13:57]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að fagna síðustu orðum hv. þingmanns þar sem hann sagði að það ætti að falla alfarið frá þessari skattheimtu því að auðvitað er þetta ekkert annað en skattur og hann er ósanngjarn. Ég tek því undir orð hv. þm. Helga Hjörvars og fagna þeim þegar hann segir að til lengri tíma litið eigi að fella skattinn niður.

Ég held hins vegar, og það er mín bjargfasta skoðun, að við eigum að leita leiða til að afnema þá skatta sem við fáum líka athugasemdir við frá ESA, hvernig við getum afnumið þá og af hverju. Hv. þingmaður svaraði reyndar ekki spurningu minni sem var þess eðlis hvort hann teldi að þau skref sem stigin voru hér í desember hafi komið til móts við ESA. Ég tel að svo sé ekki og við þurfum að leita leiða til þess að fella brott stimpilgjöldin. Mér finnst við hljóta að geta skoðað forgangsröðun okkar í því hvernig við förum með fjármuni. Ef við viljum fara með fjármuni ríkisins þannig að við viljum koma til móts við heimilin þurfum við einhvern veginn að draga úr útgjöldum ríkisins um 4 milljarða til að geta afnumið stimpilgjöldin. Mér finnst það vera leið sem við eigum að íhuga og huga að. Miðað við margt annað sem við höfum gert á undanförnum árum er það alveg jafnbrýnt og til hagsbóta fyrir fólkið í landinu eins og margt annað sem telst brýnt fyrir fólkið í landinu. Við þurfum ekkert að takast á um það hverjir sitja í ríkisstjórn hverju sinni, þetta er óverjandi skattur að áliti flestra og við þurfum að sameinast um að afnema hann, því fyrr því betra.