141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

stimpilgjald.

294. mál
[14:05]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Hr):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrir fram komið frumvarp hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um afnám stimpilgjalds, ég held að það sé hið besta mál.

Ýmis gjöld og skattar eru til komnir oft og tíðum af góðum og gildum ástæðum, vegna aðstæðna í samfélaginu og í viðskiptaumhverfi og annars slíks. Stundum virðast mannanna verk, hvort sem það eru ákvarðanir um gjöld eða eitthvað annað, verða að einhvers konar náttúrulögmáli. Stimpilgjald er mannanna verk og fyrst hægt var að taka ákvörðun um að afnema stimpilgjald af fyrstu íbúð sé ég ekki annað en að jafneinfalt sé að taka ákvörðun um að afnema stimpilgjald með öllu.

Það er óréttlátur skattur, eins og fram hefur komið, ég er sammála því. Ég vona það að frumvarpið nái fram að ganga og verði að lögum og að þessi óréttláti skattur verði hreinlega aflagður. Við vitum að við erum með dýrustu lán í heimi og byrðar heimilanna eru nægar fyrir. Afnám stimpilgjalds yrði mikil búbót fyrir heimilin. Besta kjarabótin yrði auðvitað sú að afnema verðtryggingu þessara sömu lána.