141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:23]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var áhugaverð ræða hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og kannski rétt að minnast þess þar sem hann rifjaði upp skattkerfi Þýskalands að það er öflugasta hagkerfi Evrópu. Hvort það er vegna allra þessara sérkennilegu frádrátta veit ég ekki. Þar er hins vegar klárlega hvati til að leggja mikið á sig og til að skila góðum vinnudegi og góðum tekjum, bæði til fjölskyldunnar og þjóðarbúsins.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að þar sem skattprósentan, bæði í þessu og ýmsu öðru, er orðin svona há eykst hvatinn fyrir því að nauðsynlegt sé að gefa skattafslætti. Almennt gæti ég tekið undir margt af því sem hv. þingmaður nefndi að væri lógískt og rökrétt að gefa skattafslátt fyrir. Ástæðan fyrir því, og í þessari þingsályktunartillögu er auðvitað bara valinn einn afmarkaður þáttur, að hann er valinn er annars vegar síhækkandi álögur, skattar og annað í þeim dúr sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á bensín og olíur, olíuverð, en líka sú staðreynd að olíuverð fer hækkandi í heiminum. Við erum að reyna að ná til nokkuð stórs hluta landsins með almenningssamgöngum og veita þann möguleika að fólk geti nýtt sér þær en það eru ansi margir sem geta það ekki. Á liðnum árum hafa ýmsir einfaldlega annaðhvort flutt búferlum nær vinnunni, flutt sig frá dreifðari byggðum landsins, eða hætt í vinnunni og orðið atvinnulausir. Það er einfaldlega þannig af því að þeir geta hugsanlega ekki selt íbúðarhúsnæði sitt eða vilja það ekki. Hér er einn afmarkaður þáttur.

Ég er með eina spurningu til þingmannsins: Telur hann það ekki sanngjarnt og réttlátt jöfnunartæki, vegna þessara afmörkuðu þátta sem ég var að nefna, að ríkið, hið opinbera kemur að almenningssamgöngunum (Forseti hringir.) og þrátt fyrir að dregið verði úr skattheimtu mun þessi kostnaður að öllum líkindum verða íþyngjandi á næstu árum?