141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

105. mál
[14:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég gleymdi áðan að geta þess að við erum með dagpeninga vegna kostnaðar við ferðir, sérstaklega til útlanda, og þeir eru frádráttarbærir frá skatti upp að vissu marki, eftir ákveðnum reglum og með ákveðnu flækjustigi. Þannig að frádráttur vegna kostnaðar er til. Svo vorum við að afnema sjómannaafsláttinn og ég hef aldrei skilið af hverju menn leysa það ekki með nákvæmlega sama hætti.

Af hverju hækka útgerðarmenn ekki kostnað sjómanna og hækka hann upp í það sem maturinn og kosturinn um borð kosta raunverulega. Hann kostar óskaplega mikið vegna þess að kokkurinn er á hlut. Það má láta sjómennina borga þann kost að fullu og herbergið sitt um borð, sturtuna og allt það, aðstöðuna eða hótelaðstöðuna eða hvað menn vilja kalla það, á nákvæmlega sama hátt og starfsmenn sem fara til útlanda. Sjómenn fengju svo dagpeninga á móti.

Á móti fengju þeir hækkun launa sem er nákvæmlega jafnmikil þannig að kostnaður útgerðar mundi ekki vaxa neitt. Menn mundu borga stærsta hlutann af kostinum og húsnæðinu og launin yrðu hækkuð jafnmikið og þá mundi það ekki breyta neinu fyrir útgerðina, en menn gætu notið dagpeninga sem eru frádráttarbærir frá skatti eins og hjá til dæmis opinberum starfsmönnum. Þetta er eiginlega allt til og ég skil ekkert af hverju menn gera þetta ekki. Ég get ekki séð að neitt banni það.

En það sem er mikilvægt í þessu öllu saman er að vinnumarkaðurinn þarf að vera sveigjanlegur. Ef maður býr í Hveragerði og konan hans vinnur á Selfossi og hann fær vinnu í Reykjavík þá á hann að vinna í Reykjavík og keyra á milli. Þetta gerir fjöldi manns, en nú hefur mjög hátt bensínverð og olíuverð, dísilverð, gert þetta mjög óhagkvæmt. Svona frumvarp gæti því hugsanlega skapað aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði.

Ég vara hins vegar við flækjustiginu og ég vara við kostnaðinum við flækjustigið. Eins og er sagt í greinargerð með tillögunni er orkukostnaður að vaxa en á móti kemur að nú eru að koma bílar sem eyða miklu minna og þá hverfur þessi mikli kostnaður aftur. Ef bíll eyðir 5 eða 6 lítrum á hundraðið er ekki lengur um að ræða sama kostnað og ef hann eyðir 10. Þannig að þróunin mun væntanlega á fimm eða tíu árum taka þennan kostnað aftur til baka, en þá minnka tekjur ríkissjóðs og Vegagerðarinnar. Þar komum við að öðrum vanda, frú forseti.