141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

almannatryggingar.

454. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, frítekjumark lífeyris. Flutningsmenn auk mín eru Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Lilja Mósesdóttir.

Frumvarp þetta miðar að því að snúa við þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með lögum nr. 70/2009 — það er svokallaður bandormur eða ráðstafanir í ríkisfjármálum — á þann hátt að réttarstaða hlutaðeigandi aðila verði sú sama og hún var fyrir þær breytingar.

Með lögum nr. 70/2009, sem samþykkt voru 29. júní 2009 voru gerðar margvíslegar breytingar á elli- og örorkubótum sem skerða bætur lífeyrisþega. Lögin tóku gildi aðeins nokkrum dögum síðar eða 1. júlí sama ár og því höfðu þeir sem urðu fyrir skerðingunum afar lítinn tíma til þess að aðlaga sig breytingunum. Þáverandi félagsmálaráðherra sagði af þessu tilefni að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða og væri ráðstöfuninni ætlað að gilda í þrjú ár. Sá tími er liðinn.

Í greinargerð með frumvarpinu eru einnig vísbendingar um ætlun stjórnvalda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á árinu 2008 náðust fram miklar réttarbætur til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega. Óhjákvæmilegt er að stíga skref til baka við núverandi aðstæður. Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríki í þjóðfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga.“

Svo mörg voru þau orð. Nú rúmum þremur árum síðar hefur ráðstöfunin ekki gengið til baka og ljóst er að ef færa á þetta til baka á þessu kjörtímabili verður að ráðast í það strax. Um mikið réttlætismál fyrir bæði aldraða og öryrkja er að ræða og teljum við flutningsmenn frumvarpsins brýnt að málið fái framgöngu á þessu þingi.

Ég lagði þetta mál fram síðasta haust og auðvitað hefði verið æskilegt ef þessu hefði verið breytt áður en fjárlög tóku gildi og þetta hefði farið inn í þá vinnu, en ég fékk ekki tækifæri til þess að mæla fyrir málinu á síðasta ári. Ég ítreka að þetta er síðasta tækifæri fyrir þá flokka sem stóðu að skerðingunni að vinda ofan af henni.

Í 1. gr. eru í fyrsta lagi lagðar til þær breytingar að ekki er gert ráð fyrir að aldurstengdar örorkubætur skerðist vegna tekna lífeyrisþega. Í annan stað er gert ráð fyrir að frítekjumark ellilífeyrisþega verði fært úr 480 þús. krónum í 1.315.200 krónur. Verður frítekjumark vegna atvinnutekna þá hið sama hjá elli- og örorkulífeyrisþegum. Í þriðja lagi er lagt til að heimild lífeyrisþega til þess að velja milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar verði komið á aftur. Gert er ráð fyrir að þessi heimild nái jafnt til ellilífeyrisþega sem og örorkulífeyrisþega. Í fjórða lagi er lagt til að lífeyrissjóðstekjur teljist ekki til tekna við útreikning grunnlífeyris. Eftir breytingar á lögunum árið 2009 var farið að láta lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif á útreikning elli- og örorkulífeyris. Hér er lagt til að það verði fært aftur í fyrra horf.

Í 2. gr., þar sem lagt er til í þessu frumvarpi að aldurstengd örorkuuppbót verði ekki tekjutengd, er gerð sú breyting að ekki er vísað í 5. mgr. 18. gr. þar sem vikið er að skerðingu örorkulífeyris vegna tekna og í núgildandi lögum gert ráð fyrir að aldurstengd örorkuuppbót skerðist með sama hætti. Greininni er ætlað að koma í veg fyrir að aldurstengd örorkuuppbót skerðist á þennan hátt.

Ef ég fjalla aðeins um 3. gr. þá er í henni lagt til að 11. töluliður í ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði felldur brott. Umræddum 11. tölulið var breytt, samanber breytingartillögur meiri hluta efnahags- og skattanefndar við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 70/2009, samhliða því að heimild lífeyrisþega til að velja milli ákveðins frítekjumarks eða að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar var felld brott. Þar sem lagt er til með frumvarpi þessu að valrétti ellilífeyrisþega verði aftur komið á telja flutningsmenn rétt að fella umrætt ákvæði brott. Einnig er lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingar verði lækkað aftur í 38,35% eins og mælt er fyrir um í 22. gr. en 13. töluliður ákvæðis til bráðabirgða tiltekur 45% skerðingarhlutfall tímabundið. Það er því lagt til að umrætt ákvæði verði fellt brott.

Frumvarp þetta er samið í samvinnu við Félag eldri borgara, vil ég þakka sérstaklega góða samvinnu, og með vitund Öryrkjabandalags Íslands.