141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

barnalög.

323. mál
[14:43]
Horfa

Flm. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Skúli Helgason.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, þess efnis að takmörkun sú sem nú er í 1. mgr. 10. gr. laganna varðandi heimild karlmanns til höfðunar á faðernismáli er felld brott. Frumvarp um breytingu á þessari grein barnalaga hefur verið flutt tvisvar áður af Dögg Pálsdóttur (á 135. og 136. löggjafarþingi) en náði ekki fram að ganga. Í núgildandi 1. málslið 1. mgr. 10. gr. kemur fram að maður sem telur sig vera föður barns getur þá aðeins höfðað faðernismál að barn hafi ekki verið feðrað. Í þessu felst veruleg takmörkun á rétti manns til að leita úrskurðar dómstóla um réttindi sín og skyldur, samanber 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem og takmörkun á rétti barns til að þekkja foreldra sína, samanber 1. gr. barnalaga, í þeim tilvikum sem barn hefur ekki verið rétt feðrað. Af þeim sökum er lagt til að karlmaður sem telur sig vera föður barns geti óhindrað höfðað faðernismál því til staðfestingar.

Málshöfðunarreglur í faðernismálum hafa löngum takmarkað rétt karlmanna, sem telja sig föður barns, til að höfða dómsmál til staðfestingar á faðerni barnsins. Í barnalögum, nr. 20/1992, var takmörkun á þá leið að aðeins barn og móðir barns gátu höfðað faðernismál. Hæstiréttur hefur talið þá takmörkun ósamrýmanlega 70. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem í 70. gr. fælist sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og að allar takmarkanir á þeirri meginreglu yrði að skýra með hliðsjón af því. Við umfjöllun um þá mismunun á réttindi kynjanna sem reglan fæli í sér, samanber 65. gr. stjórnarskrárinnar, var ekki talið að hún byggðist á málefnalegum sjónarmiðum og vísað til hagsmuna þjóðfélagsins í heild og ekki síst hagsmuna barns af því að faðerni þess sé réttilega leitt í ljós og ákvarðað. Í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003 lagði sifjalaganefnd til að 1. málsliður 1. mgr. 10. gr. yrði samhljóða þeirri tillögu sem felst í frumvarpi þessu. Í greinargerð með frumvarpinu kom meðal annars eftirfarandi fram:

„Á undanförnum árum hafa verulegar breytingar orðið á viðhorfum í barnarétti eins og vikið hefur verið að. Kastljósinu hefur m.a. í auknum mæli verið beint að rétti barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál er fallin til að styrkja þessi réttindi barns. Í ljósi þessara breyttu viðhorfa, sem m.a. endurspeglast í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000, eru fyrrgreindar breytingar á málsaðild lagðar til.“

Við meðferð frumvarpsins á Alþingi lagði allsherjarnefnd til þá breytingu, sem var samþykkt, að málsaðild karlmanns sem telur sig föður barns skyldi takmörkuð við þau tilvik sem barn er ófeðrað. Í nefndaráliti allsherjarnefndar á þskj. 1338 á 128. löggjafarþingi kom fram að megintilgangur breytingartillögunnar væri að koma í veg fyrir tilhæfulausar málsóknir.

Telja verður að þau sjónarmið sem sifjalaganefnd lagði til grundvallar í frumvarpi sínu, og byggjast að miklu leyti á áðurnefndum dómi Hæstaréttar, eigi enn við í dag og að sú takmörkun sem felst í 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga kunni að brjóta gegn 65. og 70. gr. stjórnarskrárinnar sem og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Er því með frumvarpi þessu lögð til sú breyting á 10. gr. barnalaga að karlmanni, sem telur sig föður barns, verði tryggð heimild til að höfða barnsfaðernismál án nokkurra takmarkana. Telja verður að sú þrenging á rétti karlmanns til höfðunar barnsfaðernismáls sem nú er í greininni sé óeðlileg og ekki barni fyrir bestu. Ætla verður að ótti við tilhæfulausar málshöfðanir sé ástæðulaus og að dómstólum ætti að vera fullkomlega treystandi til að stöðva tilhæfulaus barnsfaðernismál.

Í nóvember 2007 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að fjalla um stöðu einstæðra foreldra og barna þeirra. Verkefni nefndarinnar var að skoða réttarreglur og gera tillögur að hugsanlegum úrbótum á málefnum þessara hópa. Árið 2009 kom út skýrsla nefndarinnar þar sem fram kemur að nefndin telji rök standa fyrir því að maður sem telur sig vera föður barns geti höfðað vefengingar- og ógildingarmál þegar um feðrað barn er að ræða. Nefndin vænti þess síðan að sérstakri nefnd yrði falið að skoða þetta álitaefni frekar. Í skýrslunni var fjallað um sóknaraðild í faðernismálum og þær breytingar sem gerðar voru á barnalögunum árið 2003. Fram kemur í skýrslunni að rökin fyrir óbreyttri sóknaraðild við breytingu á barnalögum hafi verið þau að munur sé á réttarstöðu barns eftir því hvort það hafi verið feðrað eða ekki. Ófeðrað barn hafi ríka hagsmuni af því að njóta stuðnings tveggja foreldra. Hafi barn hins vegar þegar verið feðrað verði að gæta að rétti barnsins til stöðugleikatengsla og öryggis.

Í ljósi þess dóms Hæstaréttar sem þegar hefur verið reifaður og fjallaði bæði um hagsmuni mannsins af því að fá úrlausn mála sinna fyrir dómi og ríka hagsmuni barnsins af því að vera rétt feðrað taldi nefndin, sem félagsmálaráðherra skipaði og gaf út skýrslu um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum, sömu rök eiga við um réttarstöðu manns og barns þó að barnið hafi ekki verið feðrað.

Þann 31. október 2007 var lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á barnalögum. Ein umræða fór fram um frumvarpið. Henni lauk 2. nóvember 2007. Frumvarpið var aftur lagt fram á Alþingi óbreytt þann 1. apríl 2009. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðin „enda hafi barnið ekki verið feðrað“ í 1. mgr. 10. gr. verði felld út og þannig yrði manni sem telur sig vera föður barns veitt heimild án takmarkana til þess að höfða mál til staðfestingar á faðerni sínu.

Fram kom í athugasemdum með frumvarpinu að þær takmarkanir sem gerðar eru á sóknaraðild manns er telur sig föður sé óeðlileg og hugsanlegt sé að hún brjóti í bága við rétt barnsins til að þekkja báða foreldra sína sem tryggður er bæði í barnalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þá kom fram í athugasemdum að ótti við tilhæfulausar málshöfðanir sem urðu til þess að takmörkun varð síðan á sóknaraðildinni við breytingu á barnalögum sé ástæðulaus, því að reynslan hafi sýnt að dómstólar gera strangar sönnunarkröfur í faðernismálum. Þá eigi dómstólum að vera treystandi til að stöðva hugsanleg tilhæfulaus faðernismál.

Vorið 2009 var í tengslum við BA-ritgerð í lagadeild Háskólans í Reykjavík, um sóknaraðild í faðernismálum, gerð rannsókn á hversu mörg faðernismál höfðu verið höfðuð frá gildistöku núgildandi barnalaga frá árinu 2003. Niðurstöður rannsóknar sýndu að í Héraðsdómi Reykjavíkur hafði alls 91 faðernismál verið höfðað frá gildistöku laganna. Í aðeins tveimur tilvikum var sóknaraðili maður er taldi sig vera föður barns. Af því verður ekki dregin sú ályktun að ekki sé um að ræða fleiri tilvik. Líklegra þykir að tálmanir sem fram koma í barnalögunum komi í veg fyrir að maður í þeirri stöðu geti krafist viðurkenningar á faðerni sínu.

Telja verður að besta niðurstaðan sé því að breyta ákvæðum barnalaga í samræmi við tillögur þær sem nú eru til umfjöllunar. Eins og þegar hefur komið fram var ástæða takmörkunar við ófeðruð börn að sporna við tilefnislausri málshöfðun, en reynslan er sú að slíkt á ekki við. Í lögum er að finna úrræði sem verjast slíku. Því verður að telja óþarft að hafa þessa takmörkun í ákvæði barnalaga, bæði vegna þess hve fátíð faðernismál eru og vegna þess að næg úrræði eru til staðar í lögum til að sporna við tilefnislausri málshöfðun.

Á árunum 2003–2009 féllu 39 dómar í faðernismálum. Þar af var eitt mál sem höfðað var af manni er taldi sig föður. Af þeim 52 málum sem ekki voru leidd til lykta með dómi er jafnframt aðeins eitt höfðað af manni sem taldi sig föður en því máli lauk með sátt milli aðila. Af þeim niðurstöðum áðurnefndrar rannsóknar í tengslum við BA-ritgerð þessa, um sóknaraðild í faðernismálum, má draga þær ályktanir að áætlun allsherjarnefndar um tilhæfulausa málshöfðun hafi ekki reynst á rökum reistar og að mat sifjalaganefndar hafi verið réttara, þ.e. ekki væri tilefni til að hafa takmarkanir á sóknaraðild manns er telur sig vera föður barns.

Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru í samræmi við réttindi barnsins til að þekkja báða foreldra sína sem er einnig í samræmi við 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ætla má að það sé barni fyrir bestu að vita hver sé réttur faðir þess og að faðir geti farið í mál til að fá faðerni sitt staðfest. Barn undir lögaldri getur nú ekki höfðað mál án þess að lögráða maður sé í fyrirsvari fyrir það, samanber reglur einkamálaréttarfars. Í raun tekur það því fyrir að barn geti fengið viðurkenningu á faðerni sínu fyrr en það er orðið lögráða nema móðir sé tilbúin til að höfða slíkt mál fyrir hönd barnsins.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á aðildarreglum í faðernismálum eru skref í rétta átt, en telja verður þó að rétt sé að stíga skrefið til fulls og afnema alveg þá takmörkun að barn þurfi að vera ófeðrað til að málshöfðun geti átt sér stað hjá manni er telur sig föður.

Maður sem telur sig föður hefur aðeins möguleika á að fá úrlausn um ágreining sinn fyrir dómi ef barn er ekki feðrað. Barn getur verið feðrað sjálfkrafa við fæðingu, jafnvel þó vitað sé að sá maður sem er skráður sem faðir er ekki réttur faðir barnsins. Takmarkanir á sóknaraðild í faðernismálum brjóta gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, bæði hvað varðar rétt til úrlausnar um réttindi og skyldur fyrir dómstólum og rétt um að allir skuli vera jafnir að lögum.

Áréttuð er þörfin á þeim breytingum sem nú hafa verið lagðar til, að tryggður sé annars vegar réttur barns til að þekkja báða foreldra sína og hins vegar réttur manns er telur sig föður til að bera mál sitt undir dómstóla. Hagsmunir barns af því að vera rétt feðrað eru jafnríkir, hvort heldur sem barnið er feðrað eða ófeðrað.

Ég legg til að að lokinni umræðu um málið verði því vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr. Ég vona að nefndin taki málið til góðrar og rösklegrar umfjöllunar svo ljúka megi því á þessu þingi.