141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

barnalög.

323. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur sem svo sannarlega eru gildar. Ég er ekki viss um að þær eigi beinlínis heima í þeim málflutningi sem hér er sem tengist rétti föður til að fá að sækja mál — í raun snýst málið kannski ekki hvað síst um það að allir borgarar landsins eigi rétt á því að fara með mál sitt fyrir dómstóla. Það er kannski það sem er stærst í þessu máli, auk þess sem það er í barnalögum. Við verðum náttúrlega að gera okkur grein fyrir hvað við erum að gera þegar við setjum markmið með barnalögunum. Markmið barnalaga er í raun og veru það að hagsmunir barns séu ávallt hafðir að leiðarljósi. Talið er þar að það séu hagsmunir barns að þekkja báða foreldra sína.

Í þeim veruleika sem við búum við í dag eru notuð gjafaegg og gjafasæði og jafnvel er það til að kona gangi með barn fyrir foreldra þar sem jafnvel hugsanlega báðar, hvað á ég að segja kynfrumurnar koma frá þeim foreldrum. Þetta er flókinn veruleiki. En ég held að við verðum að horfast í augu við það að barn þarf eftir sem áður að vita um tilurð sína, það þarf kannski ekki að vita nákvæmlega hverjir foreldrarnir eru. Ég held að það skipti öllu máli fyrir líðan barns að þegar það hefur þroska til þá viti það í raun og veru hvernig það er til komið og því sé sagt það á afar faglegan og góðan hátt.

Ég skal viðurkenna að í þessu máli hef ég ekki hugsað það út frá slíkum flækjum, heldur er ég nú með gamaldagsaðferðafræði í huga þar sem líffræðilegur faðir er til staðar.