141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[15:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að koma því hér á framfæri að alveg sjálfsagt er og í raun mikilvægt að fara yfir starfsemi lífeyrissjóðanna og að sjálfsögðu held ég að það sé gott að nýta til þess þau gögn sem þegar liggja fyrir.

Ég kem aðallega hingað upp til þess að gagnrýna að þessi tillaga kemur hér inn í þingið og á henni eru fimm fulltrúar stjórnarmeirihlutans. Það liggur fyrir að a.m.k. tvær ef ekki þrjár aðrar rannsóknir bíða eftir því að fara í gang. En það eru engir fjármunir til í þær og þið hljótið að spyrja: Hvernig stendur á því að þessir sömu ágætu þingmenn og leggja hér til skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna tryggja ekki í hinu herberginu fjármuni í þessar rannsóknir? Það er mjög undarlegt að fara fram — og það kemur málinu ekkert við hvort það sé gott eða slæmt — og leggja fram svona tillögu. Ég gæti trúað að þessi rannsókn kostaði 100–150 milljónir, miðað við reynsluna sem við höfum af rannsóknarnefndum fram að þessu. Þeir peningar koma bara ekkert af himnum ofan.

Mér finnst það orka tvímælis að setja fram svona tillögur — af því að þetta er ekki eina rannsóknarnefndin sem er verið að fjalla um — án þess að búið sé að tryggja fjármuni í fjárlögum til þess að fara í slíka rannsókn. Ég vil því leyfa mér að gera athugasemd við þessi vinnubrögð, þótt ég sé sammála því að það þurfi að skoða þessi mál. Þetta er hálfgerð sýndarmennska í sjálfu sér vegna þess að það fylgja ekki fjármunir til þess að hægt sé að gera þessa rannsókn. Af hverju er þá verið að leggja þetta mál fram? Það er þetta sem mér finnst mjög sérstakt, ekki síst vegna þess að við vitum að fyrir liggur að það þurfi að fara í a.m.k. tvær eða þrjár aðrar rannsóknir sem við erum búin að ræða hér eða samþykkja. Fjárlaganefnd ákvað að veita ekki þá fjármuni sem forsætisnefnd eða Alþingi, yfirstjórn þingsins, bað um til að fjármagna þessar rannsóknir. Því neitaði fjárlaganefnd. Þetta er ótrúlegt.