141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í Icesave-málinu hafði Sjálfstæðisflokkurinn tvö atriði að leiðarljósi við meðferð þingsins. Í fyrsta lagi að við Íslendingar hefðum sterka lagalega stöðu í Icesave-deilunni og því væri engin ástæða, þrátt fyrir vilja til samninga, til að undirgangast afarkosti, okurvexti eða þvinganir. Þvert á móti styrkti hin lagalega staða okkar samningsstöðuna. Munurinn á fyrstu samningunum og hinum síðustu sýnir að þar höfðum við á réttu að standa.

Í öðru lagi höfðum við það að leiðarljósi allt frá fyrstu stigum málsins að þjóðin ætti að eiga síðasta orðið um Icesave-samningana. Nú, þegar niðurstaða er fengin, dómur hefur fallið hjá EFTA-dómstólnum um hinar alþjóðlegu skuldbindingar, er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að þessu máli, sem hefur legið eins og mara á þjóðinni í fjögur ár, skuli loks lokið með bestu niðurstöðu sem hugsast getur, fullkominni sýknu, sýknu Íslands hvað öll atriði dómsins varðar og greiðslu málskostnaðar í ofanálag. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að hafa fengið staðfestingu á því að við brutum engar alþjóðlegar skuldbindingar. Á sínum tíma áttum við enga bandamenn erlendis í málinu.

Við stóðum ein með þá fullyrðingu okkar að við hefðum ekki farið í bága við skuldbindingar okkar, að við værum ekki alþjóðlegir glæpamenn eða fjársvikarar. Sá málstaður átti engan hljómgrunn hjá stjórnvöldum í Evrópusambandslöndunum, hann átti heldur engan hljómgrunn hjá Norðurlandaþjóðunum sem gerðu áskilnað um lausn málsins þegar leitað var eftir lánafyrirgreiðslu og sama átti við um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem stjórnin beitti málinu fyrir sig og frestaði fyrirgreiðslu. Að þessu leytinu til stóðum við ein.

Smám saman rann þó upp ljós fyrir erlendum stórblöðum, hagfræðingum og lögfræðingum sem stóðu utan hins pólitíska hráskinnaleiks.

Það var málflutningur þeirra sem á sínum tíma töluðu fyrir því að afspyrnuvondir samningar væru eins og syndaaflausn fyrir þjakaða þjóð að það væri þjóðinni siðferðilega hollt að taka á sig hundruð milljarða. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma í dag, þegar við fögnum þessari niðurstöðu, þá heyrðust þessar raddir bæði hér á landi og erlendis.

Hrun bankakerfisins var ekki íslenskum almenningi að kenna. Þessi dómur er því sigur fyrir siðferðisþrek íslensku þjóðarinnar sem vildi ekki láta hafa sig fyrir rangri sök. Þetta er jafnframt mikill sigur sjálfstæðrar fullvalda þjóðar yfir þeim sem í krafti stærðar sinnar töldu sig geta einangrað okkur og þvingað fram vilja sinn gagnvart Íslandi sem álitið var minni máttar. Þann þátt sem snýr að sjálfstæðinu, fullveldinu og sjálfsákvörðunarrétti okkar þarf að minna sérstaklega á nú þegar yfir standa viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sérstaklega á þetta við þar sem einmitt um þessar mundir eru í smíðum reglur sem taka sjálfsákvörðunarrétt af aðildarþjóðum í aðstæðum sambærilegum þeim sem hér urðu haustið 2008. Það má stórlega efast um ef hugmyndir um hið nýja regluverk, sameiginlegt bankaeftirlit og fjármálaeftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu, hefðu verið í gildi þegar íslensku bankarnir féllu að við hefðum fengið nokkurt sjálfdæmi um það hvort hér ætti að setja neyðarlög og veita innstæðum forgang eins og gert var. Það má þvert á móti halda því fram að að öllum líkindum hefði hið sameiginlega evrópska fjármálaeftirlit hafnað þeirri hugmynd og haft betur yfir íslenska fjármálaeftirlitinu vegna þess að Evrópusambandið ætlar sér að eiga síðasta orðið fram yfir vilja þjóðþinganna og einstakra fjármálaeftirlita í aðildarríkjunum.

Þessi dómur er sigur fólksins á ofríki ríkisstjórnar sem vildi keyra í gegn samninga án þess að hlusta á mótmælaraddir, háværar og fjölmennar mótmælaraddir, bæði innan þings og utan. Icesave-málið snýst í raun og veru um svo miklu meira en Icesave-reikninga Landsbankans. Málið er og varð að táknrænu máli um það að öll þjóðin hafi borið ábyrgð á bankahruninu, siðferðilega ábyrgð, og það var rekið sem pólitískt mál, ekki sem sameiginlegt úrlausnarefni okkar Íslendinga. Þess vegna þykir mér fullseint fyrir utanríkisráðherra að tala um mikilvægi þess að okkur hafi tekist eftir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu að sameinast um það hvernig við ættum að halda á málstað okkar. Allt er það rétt sem hæstv. ráðherra segir, en það er of seint fyrir ríkisstjórnina að tefla þessu sjónarmiði fram í dag. Við þingmenn áttum ekki einu sinni að fá að sjá fyrsta samninginn. Allt í kringum samningana var mikið leyndarmál og pukrast með gagnamöppur. Þeir sem áttu að mynda sér skoðun um málið til að geta greitt um það atkvæði fengu eftir dúk og disk allra náðarsamlegast að kynna sér gögnin.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í dag sem hafa talað um að Alþingi hafi ákveðið að gengið skyldi til samninga og láta eins og ríkisstjórnin hafi verið viljalaust verkfæri þingsins. Þá er rétt að minna á að hér efndum við í stjórnarandstöðunni til lengstu umræðu í sögu þingsins til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin semdi svo af sér fyrir hönd þjóðarinnar að ólíklegt hefði verið að niðurstaða dóms Íslandi í óhag hefði getað orðið verri en þeir samningar.

Þeir sem samþykktu Icesave I-samninginn ólesinn og svo Icesave II samþykktu þar plögg sem gátu engan veginn talist uppfylla þau skilyrði að teljast samningar fullvalda þjóðar. Í þinginu náðist meiri hluti um þriðja samninginn, þann samning studdi ég. Þar var leitast við að lágmarka óvissu og lagalega og fjárhagslega áhættu. Þá var einnig orðið ljóst að þrotabú Landsbankans stæði vel og greiðslur úr því yrðu ekki sérstakt vandamál. Það var loks mat mitt og allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, líkt og á fyrri stigum, að rétt væri að vísa málinu til þjóðarinnar og leyfa henni að eiga síðasta orðið um þá skuldbindingu sem í samningnum fólst. Það traust bar ríkisstjórnin aldrei til þjóðarinnar, ekki á nokkru stigi.

Það er því holur hljómur í yfirlýsingum sem berast í dag um að nú sé ekki rétti tíminn til að finna sökudólga. Að vísu má segja að í dag er loksins dagur fyrir okkur Íslendinga alla að fagna því að réttlætið skuli hafa náð fram að ganga. Það gat enginn gengið út frá því sem vísu. Það er hins vegar ekki hægt að gera áskilnað um það í umræðunni að menn geti alfarið skotið sér undan hinni pólitísku ábyrgð. Þegar menn segja að ekki sé rétt að nota daginn í dag til þess að leita að sökudólgum þá tek ég eftir því að það eru einkum þeir sem almennt eru taldir stærstu sökudólgarnir í málinu sem þar hafa hæst. (Utanrrh.: Ertu að tala um mig?)

Í því sambandi er kannski ekki síst ástæða til þess að rifja upp hér í þinginu í dag að fyrrverandi forsætisráðherra var talinn bera slíka sök á þáttum sem varða einmitt Icesave-reikningana að meiri hluti þingsins taldi rétt að ákæra hann sérstaklega fyrir það að hafa ekki komið reikningum sem voru í útibúum í dótturfélög erlendis. Það var talin sérstök ástæða að hafa ákærulið yfir fyrrverandi forsætisráðherra vegna þess máls. Í ljósi þess sem í millitíðinni hefur verið sagt af Hæstarétti Íslands um neyðarlögin og í dag hjá EFTA-dómstólnum ættu margir að minnsta kosti að íhuga það að gera grein fyrir því hvort sú afstaða hafi verið sanngjörn, eðlileg og í samræmi við tilefnið.

Virðulegi forseti. Ég óska öllum Íslendingum til hamingju með þessa niðurstöðu. Ég veit að hver einasti þingmaður gleðst í hjarta sínu yfir henni sama hvernig menn hafa teflt fram afstöðu sinni fram til þessa. Við eigum að leyfa okkur að nota þetta mál til þess að læra af því en við verðum líka að horfa um öxl og spyrja okkur, ef við ætlum að læra af því: Eru menn tilbúnir til þess að líta í eigin barm?