141. löggjafarþing — 71. fundur,  28. jan. 2013.

dómur EFTA-dómstólsins um Icesave, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð mjög snortin þegar ég heyrði fréttirnar áðan. Ég var ein af þeim fjölmörgu sem stóðu í mikilli baráttu við að tryggja að þjóðinni gæfist nægilega mikill tími til að kynna sér öll málsatvik. Alltaf voru að koma upp nýir og nýir punktar varðandi Icesave þegar við fengum það fyrst til meðferðar. Ég upplifði það mjög sterkt áðan, þegar ég var að fara yfir þetta, að dagurinn í dag væri sigur lýðræðisins. Mig langar til að þakka öllum og meira að segja líka „já-urunum“. Áleitnar spurningar þeirra og gagnrýni urðu til þess að við gátum farið út með bestu mögulegu málsvörn sem til var þar sem öllum steinum hafði verið velt við.

Það voru margir sem vildu fara með þetta til dómstóla, þar á meðal ég sjálf. Ég vissi að við mundum vinna þetta mál, ég vissi það í hjarta mínu út af því að við höfðum ekki gert neitt rangt, það gat ég ekki séð út frá öllum þeim upplýsingum sem lágu fyrir eftir að öllum steinum hafði verið velt við. Þess vegna segi ég: Takk, líka þið sem sögðuð já. Ég segi það ekki með neinni kaldhæðni eða af neinum annarlegum hvötum. Mér finnst það mjög mikilvægt að við skulum hafa náð að vinna saman að málsvörn okkar, mér finnst mikilvægt að hafa það í huga í dag.

Ég er ekki manneskja sem fæ mikið út úr því að segja: „I told you so,“ þannig að maður sletti, mér finnst það ömurleg tilvera. Ég er mjög ánægð með að niðurstaðan er þessi. Þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem er, við vitum það. Ég held að þeir séu ákaflega fáir sem hafa vaknað í morgun sannfærðir um að niðurstaðan sem við fengjum í dag yrði sá veruleiki sem við erum að tala um núna. Það voru flestir undirbúnir fyrir nei. Fögnum því að svo varð ekki. Það er mikilvægt að læra af mistökunum en mig langar til að halda í þessa gleðitilfinningu yfir því að við höfum fengið fullnaðarsigur. Mér finnst það mikilvægt. Bíðum með að finna sökudólga og fara í stríð. Við gerum nóg af því hér inni, bíðum með það alla vega í einn dag, bara í einn dag.

Mig langar að lesa yfirlýsingu frá okkur í þinghópi Hreyfingarinnar. Hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við í þinghópi Hreyfingarinnar fögnum niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu. Sigurinn er margra, ekki síst allra þeirra sem lögðu nótt við dag að hindra að Icesave-samningarnir næðu í gegn og knúðu fram þjóðaratkvæðagreiðslu í málinu, hina fyrstu á lýðveldistímanum. Og það var merkileg stund.

Niðurstaða málsins er sigur lýðræðisins og sýnir glöggt að almenningi er fyllilega treystandi til að taka ákvarðanir í stórum og flóknum málum. Með samstöðu borgaranna var því afstýrt að byrðar sem hefðu verið þjóðinni ofviða væru lagðar á hana. Þinghópur Hreyfingarinnar vill þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og hópum sem tryggðu bestu mögulegu útkomu í málinu.“

Þeir eru svo margir sem lögðu hönd á plóg í þessu máli að ég mundi klára tímann minn að telja þá alla upp. Þeir sem unnu alla þessa vinnu vita hverjir þeir eru, ég hef oft nefnt það hér í öllum þeim óendanlega mörgu Icesave-ræðum sem ég hélt í þessum stól.

Barátta borgaranna gegn fjármálavaldinu í Icesave-málinu hefur vakið heimsathygli, alveg ótrúlega mikla athygli. Í niðurstöðu málsins felst sú staðfesting að rangt sé að ríkisvæða skuldir einkafyrirtækja, ferlið í kringum Icesave eftir að ljóst var að við þyrftum að verja okkur gegn EFTA-dómstólnum, það hefur verið til fyrirmyndar. Mig langar að þakka öllum þeim, og sérstaklega hópnum sem undirbjó málsvörn okkar, fyrir þann árangur sem við höfum náð í dag.

Mjög mikil vinna var lögð í greininguna af einstaklingum og samtökum sem tóku sig saman og reistu grunninn að málsvörn okkar og ég er þeim mjög þakklát. Ég er líka mjög þakklát þeim sem fóru með munnlegu vörnina en skriflega vörnin var langmikilvægust. Það var mjög ánægjulegt að sitja í utanríkismálanefnd og finna að við vorum öll sammála um að taka þetta ekki í pólitískar skotgrafir þegar við vorum komin á þann mikilvæga stað að þurfa að verja okkur fyrir Golíat.

Sigurinn í dag er ekki bara okkar. Sigurinn í dag er sigur þeirra sem eru sammála því að aldrei eigi að taka skuldir einkafyrirtækja og velta þeim yfir á axlir skattborgara. Ég held að það sem átti sér stað í dag muni hafa miklar afleiðingar um heim allan en þó ekki eins miklar og ef við hefðum tapað málinu því að tap okkar í dag hefði verið tap allrar Evrópu. Fjármálakerfið í Evrópu er viðkvæmt og það hefði getað haft skelfilegar afleiðingar að skapa þannig fordæmi, á þessum viðkvæmu tímum í fjármálum, að velta ábyrgðinni yfir á almenna borgara, ábyrgðinni á einkafyrirtækjum sem mörg hver eru allt of stór.

Mér finnst að við eigum að draga lærdóm af því sem hér hefur átt sér stað: Við megum engan tíma missa í að tryggja neytendavernd þegar kemur að bankalánum til fasteignakaupa. Við þurfum að aftengja bankana þannig að við séum með viðskiptabanka á eina höndina og áhættubanka á hina. Mér finnst að núverandi ríkisstjórn eigi að leggja mikla áherslu á að klára það. Eftir allt sem maður hefur fengið að heyra finnst mér prívat og persónulega — það voru ekki falleg orðin sem dembdust yfir okkur sem börðumst fyrir því að málið færi í þjóðaratkvæði — að menn ættu að líta í eigin barm og kannski bara hreinlega biðja okkur afsökunar.