141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Þetta gengur hægt en gengur þó. Vegna þess að þetta mál er þannig lagað að maður gerir ráð fyrir að að því standi menn úr ólíkum pólitískum fylkingum þá kynnum við að horfa fram á að af þessu verði á næsta ári, í samræmi við þá samþykkt sem kölluð er 63:0-samþykktin og kvað á um að komið yrði upp sjálfstæðri stofnun af þessu tagi.

Mér líst ágætlega í stuttri áheyrn á þær tillögur sem forsætisráðherra kemur fram með, annars vegar um hagdeild eða þjóðhagsstofu, þannig að notað sé orðalag hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, við Alþingi og hins vegar að stofnað verði einhvers konar hagráð þar sem óháðir sérfræðingar, gjarnan erlendir, stjórna sérstökum úttektum, heildarúttektum eða þáttarúttektum á íslensku efnahagslífi.

Ég tek líka undir þau orð Eyglóar að komist upp ný stofnun af þessu tagi væri ekki úr vegi að fela henni sérstök verkefni sem aðrar stofnanir sinna ekki og teljast kannski ekki til klassískra verkefna af þessu tagi. Skuldir heimilanna eru eitt, grænt bókhald er annað. Ég veit að það er unnið gott verk við að koma á kynjaðri hagstjórn í fjármálaráðuneytinu og víðar í Stjórnarráðinu, en slíkar athuganir gætu einmitt verið á verksviði þessarar stofnunar.

En ég tek undir það með öðrum þeim sem hér hafa talað að grunnurinn, kjarninn sem svona stofnun verður að standa á er hiklaust sjálfstæði og að vera óháð öllum hagsmunum og öllum hagfræðikreddum.