141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í raun og veru sú sama og ef ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við þær ákvarðanir sem við tókum hér árið 2010 með lagabreytingunum af hálfu ESA. Aðferðafræðin er sú að í staðinn fyrir að fara sértæka leið og ívilna gagnaverunum, þ.e. að gera þau undanþegin, setjum við þau inn í almennt ferli um endurgreiðslur á virðisaukaskatti. Í mjög einfaldaðri mynd er þetta svona.

Við förum að norskri fyrirmynd í þessu og ég tel að í staðinn fyrir að bíða núna eftir löngu ferli hjá ESA, sem hefur opnað formlega rannsókn á löggjöfinni frá 2010, ættum við að geta eytt óvissunni fyrr með því að fara þessa leið. Miðað við alla þá skoðun sem við höfum lagst í í þessu máli á staða gagnavera að vera betri að þessum breytingum samþykktum og það er von mín að svo verði. Eins og ég segi erum við ekki að finna upp hjólið og við erum að jafna samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi gagnvart stöðu þeirra í öðrum ríkjum. Það er von mín að loksins getum við farið að sjá helstu hnúta hnýtta hvað varðar lagaumhverfið þannig að gagnaveravæðingin geti farið að hefjast hér fyrir alvöru.