141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og þetta eru eiginlega mjög ferskar breytingar sem er verið að breyta til baka. Það er engan veginn heppilegt að svona skyndibreytingar þurfi að gera og sýnir kannski að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að íhuga betur þær breytingar sem hún leggur til. Menn mættu kannski flýta sér örlítið hægar og ég legg til í þessu máli að það verði skoðað nokkuð vandlega.

Spurningin er náttúrlega hvort virðisaukaskatturinn sé ekki orðinn of hár og flækjustigið of mikið, það sé orðið of mikið af undanþágum. Það er búið að vera að prjóna alls konar undanþágur við virðisaukaskattinn, ég minni á Allir vinna og allt það sem menn hafa gert til að flækja kerfið. Svo ætla ég nú ekki að tala um hvernig þetta er í Evrópusambandinu gagnvart gagnaverum. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að ég bara skil það alls ekki, þannig er nú það. Ég ætla að vona að ég geti fengið einhvern skilning þegar þetta verður rætt í efnahags- og viðskiptanefnd því hættan er sú að ef maður skilur ekki hlutina þá verða gerð mistök.

Aðalvandinn í þessu máli er sá að hérna einu sinni var til þorskur og hey og kindur og svoleiðis, eitthvað efnislegt sem hægt var að taka á. Það var kolamoli, það var hægt að taka á honum og halda á honum, en svo fóru að koma óefnislegar tekjur og eignir. Góð stjórnun í fyrirtæki er óefnisleg eign, getur hækkað verð á hlutabréfum einhver lifandis býsn af því að það er góð stjórnun, en hún sést hvergi. Ef maður horfir á hana, reynir að taka á henni, halda á henni og vigta hana þá er það ekki hægt.

Svo fóru að koma forrit frá Microsoft og öðrum sem streyma yfir rafmagnslínur. Þau eru bara elektrónur sem eru á fleygiferð og eru óefnislegar eignir og óefnislegar tekjur. Ef ég kaupi forrit á ég alltaf eitthvað sem er óefnislegt. Það er höfundarréttur á því o.s.frv. Það gerir þetta frumvarp að vanda, vegna þess að gagnaverin eru að vinna með óefnislegar eignir og óefnislegar tekjur sem eru fluttar í gegnum ljósleiðara með miklum hraða og geymdar hér á landi. En til þess að geyma þær þarf efnislegar eignir, þ.e. tölvur og diska og alls konar dót og það þarf að tolla það þegar það kemur inn og borga í virðisaukaskatt o.s.frv.

Þetta er eiginlega vandinn í hnotskurn sýnist mér, að við erum með efnislegar eignir í bland við óefnislegar og þær óefnislegu eru miklu, miklu meiri en þessar efnislegu. Ég held að skattyfirvöld heimsins eigi eftir að glíma við ýmislegt í þessu sambandi svo ég tali nú ekki um þau ósköp sem streyma hingað yfir hafið á hverri sekúndu í hlutabréfaviðskiptum, skuldabréfaviðskiptum og framvirkum samningum o.s.frv. Menn eru að reyna að taka á því í Evrópusambandinu með því að setja á Tobin-skatt eða jafnvel setja á ákvæði um að það skuli fresta þessum flutningum um svo sem eins og 1/10 úr sekúndu til þess að hægja á viðskiptunum svo að þau geti ekki orðið eins svakalega hröð.

Þessi tilflutningur á óefnislegum eignum og tekjum á eftir að valda skattyfirvöldum um allan heim miklum höfuðverk, svo maður tali nú ekki um hluti eins og ef ég sem forritari skrái mig inn á tölvu í Bandaríkjunum og er að vinna þar í bandarísku forriti í bandarísku fyrirtæki þá er spurningin: Hvar er ég eiginlega að vinna? Er ég að vinna á Íslandi eða er ég að vinna í Bandaríkjunum? Þetta er vaxandi vandamál, t.d. eru mörg hugbúnaðarfyrirtæki sem hafa ráðið Indverja í vinnu hjá sér og þeir starfa á Indlandi. Þá er spurningin: Eru þeir að starfa í Bandaríkjunum eða eru þeir að starfa á Indlandi? Hvar borga þeir skatta af þessari óefnislegu vinnu, sem er ekkert annað en hugsun, menntun, sem er breytt yfir í verðmæti?

Ég vonast til að þetta fái tíma til að gerjast í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, verði sent til umsagnar og menn skoði þetta, þannig að við þurfum ekki að breyta þessu aftur eftir tíu mánuði.