141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni þar sem hann vekur athygli á þeirri stöðu sem innlánseigendur eru í. Maður þekkir það sjálfur af persónulegri reynslu að eiga einhverja sparireikninga frá því að maður var í sumarvinnu fyrir einhverjum árum síðan og maður er kannski ekki alveg með á hreinu hvar reikningarnir liggja o.s.frv. Þetta eru nú ekki stórar upphæðir, kannski hluti af einhverri sumarhýru.

Ég tel að við ættum að gera ríkari kröfur á bankastofnanir um að vekja athygli innlánseigenda á til dæmis rýrnun á stöðu reikninga. Fjölmargir finna sig í þeim sporum að hafa ekki heildaryfirlit yfir þá bókarlausu sparireikninga sem þeir eiga eða hafa ekki gætt að því þegar þeir flytja sig á milli banka að loka öllum þeim reikningum sem þeir hafa átt á einhverjum tímapunkti.

Ég þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á þessu. Hvað mig snertir tek ég hjartanlega undir með honum um að við ættum að leggja ríkari kröfur á innlánsstofnanir um að vekja athygli innlánseigenda á þeirri stöðu sem þeir búa við, eins og þeirri stöðu sem verðbólgan setur innlánseigendur í.