141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

rannsókn á Icesave-samningaferlinu.

[13:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra hæstv. atvinnuvegaráðherra lýsa því yfir að við hefðum ráðið við þessar fjárhæðir. Hverjar sem þær eru eru þær gríðarlega háar og ég held að við ættum ekki að láta umræðuna snúast um það hvort upphæðirnar eru 50 milljarðar, 100, 200 eða 300. Allt eru þetta fjárhæðir sem eru allt of stórar til þess að við hefðum getað ráðið við þær.

Það má líka spyrja, eins og hæstv. ráðherra sagði, hvernig það væri ef við hefðum tapað. Er það það sem hæstv. ráðherra var að óska eftir, að umræðan mundi snúast um að við hefðum tapað? Niðurstaðan varð sú að við unnum og auðvitað eigum við að ræða málið út frá þeim grunni.

Það má líka spyrja: Af hverju er núvirt 6% ávöxtunarkrafa á tölurnar í þeim samningi sem hann var að tala um? Er það vegna þess að í Svavarssamningnum var það það sem aðalsamningamaðurinn bað um að yrði komið á?

Ég verð að segja að mér finnst enn skorta á vilja til að biðjast afsökunar. Ef það er tilfellið að menn ætli að fela sig á bak við það að Norðurlöndin, Evrópusambandið og AGS hafi kúgað okkur (Forseti hringir.) til þessarar niðurstöðu er þá ekki kominn tími til að ræða við Norðurlöndin? Er þá ekki líka kominn tími til að velta því fyrir sér hvort aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi haft áhrif á þetta ferli? (Forseti hringir.) Ég man ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt að við vildum ekki kyssa á vönd kúgara okkar. (Gripið fram í.) Hvað vorum við þá að gera í þessu máli á þessari stundu? Að semja við Evrópusambandið um aðild (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) á sama tíma og þeir beittu okkur fjárkúgunum, um að við tækjum yfir skuldir einkabanka sem við höfðum enga ástæðu til (Forseti hringir.) að taka á okkur. Sem betur fer unnum við þetta mál í gær.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á ræðutímann og hvetur þá til að virða hann.)