141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipting makrílkvótans.

[13:48]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna því að þótt oft hafi verið strembið að glíma við makrílmálið þá er það hátíð hjá hinu sem við ræddum hérna á undan, gaman að fá spurningu um eitthvað sem er aðeins þægilegra við að eiga.

Það er rétt að eftir gærdaginn lá niðurstaða samkomulagsins við Noreg fyrir og nú hefur Evrópusambandið staðfest hana fyrir sitt leyti. Þeir taka sér 90,4% af ráðlagðri veiði miðað við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Það skilur eftir 9,6%, ef allir ætluðu að fara að ráðgjöf, fyrir Ísland, Færeyjar og Rússland til samans. Rússar hafa tekið 9,5–10% undanfarin ár. Þeir koma með einhliða tilkynningu einhvern tíma á bilinu núna og fram í byrjun apríl ef að líkum lætur og ef það gengi eftir væri 0% eftir fyrir Ísland og Færeyjar. Það sýnir í hnotskurn hversu fráleit í raun og veru niðurstaða Noregs og ESB er. Þeir fara niður með sína veiði miðað við magnið í fyrra um 15,18%. Það er akkúrat lækkunin á ráðgjöf ICES. Það gefur svolítið tóninn um hvers má vænta af okkar hálfu.

Svarið við spurningunni er að við munum væntanlega tilkynna heildarveiði okkar innan fárra daga. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða með það en við erum að undirbúa hvernig það verður sett í loftið. Það verður einhver bið á því síðan að reglugerðin sem útfærir nákvæmlega tilhögun veiðanna á næsta sumri komi enda liggur kannski ekki alveg eins á því, en ég hygg að menn vilji fara að vita hvert heildarmagnið verður.

Ég vil á þessu stigi mála ekki gefa upp hvort þess megi vænta að einhver breyting verði milli flokka frá þeirri tilhögun sem komst á, sérstaklega frá og með árinu 2010. Auðvitað er ekki gott að vera að hringla með þetta á hverju ári en þá þarf efnisleg rök til þess að fara í slíka tilfærslu. Nú verður minna til skiptanna, eins og menn átta sig væntanlega á að stefnir í, og þar af leiðandi er viðkvæmara en ella hvernig þessu verður skipt. Við reynum að leggjast yfir það og munum auðvitað eiga samráð við (Forseti hringir.) aðila í greininni um bestu mögulegu niðurstöðu í þeim efnum eftir því sem hægt er að vænta að um slíkt geti verið einhver samstaða (Forseti hringir.) því að þarna er verið að skipta miklum hagsmunum.