141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[13:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að íslenskum sjávarútvegi hafi verið haldið í mikilli óvissu allt þetta kjörtímabil með þeim afleiðingum sem við horfum upp á. Fjárfestingar hafa verið með minna móti í greininni, m.a. vegna óvissu á þeim árum sem vel gekk. Nú er staðan erfið í mörgum greinum íslensks sjávarútvegs en áfram er óvissa ríkjandi og við sjáum nú þegar afleiðingar þeirra veiðigjalda sem lögð voru á sum útgerðarform á yfirstandandi fiskveiðiári.

Ég man ekki betur en hæstv. atvinnuvegaráðherra hafi orðað það þannig stuttu fyrir síðustu áramót eða þegar fyrir lá að hann mundi setjast í stól ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu að það mundi taka hann sirka þrjár vikur að klára þessi mál. Í kjölfarið horfðum við upp á enn eitt frumvarpið koma fram um breytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, frumvarp sem raðast örugglega í hóp með þeim frumvörpum sem lögð hafa verið hér fram og þykja hvað verst unnin. Það eru fá frumvörpin sem ná því að hafa verið eins illa unnin og eins illa undirbúin og það frumvarp, enda var ekki hægt að ljúka málinu þrátt fyrir þá tilraun eina ferðina enn.

Nú líður tíminn og óvissan er enn ríkjandi og ágreiningur á stjórnarheimilinu augljós um það hvert skuli stefna í þeim málum sem hæstv. forsætisráðherra hafði orð á stuttu fyrir áramót að væri eitt af brýnustu málunum að ljúka á þessu þingi.

Ég vil inna hæstv. atvinnuvegaráðherra eftir því hver staðan er, hvort við megum eiga von á því að hann komi fram með hugmyndir sínar og það frumvarp sem manni skilst að sé búið að vinna í ráðuneytinu og hvort hann hyggist ljúka því máli á þessu þingi.