141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir framsögu hæstv. ráðherra. Það eru tvær greinar sem ég mundi í fyrstu umferð vilja spyrja hvernig ráðherrann túlkar eða hvað þær fjalla um því að mér finnst það ekki alveg nógu skýrt.

Í 41. gr. er verið að tala um dvalarleyfi vegna samninga Íslands við erlend ríki. Tilgreint er að heimilt sé að veita ríkisborgurum tiltekinna ríkja á aldursbilinu 18–26 ára dvalarleyfi á grundvelli samnings. Liggja fyrir einhverjir slíkir samningar eða er eitthvað í bígerð varðandi þessa grein sem ráðherrann gæti sagt okkur frá?