141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[15:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir góða og jákvæða umræðu um þennan mikilvæga lagabálk sem ég er ekki í nokkrum vafa um að yrði mikil réttarbót fyrir margt fólk, mundi auðvelda fólki lífið sem vinnur með málefnið og þeim sem laganna eiga að njóta.

Menn hafa vakið máls á ýmsum þáttum. Ég tek alveg undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að þingið þarf að huga vel að því hvernig það forgangsraðar. Ég ber virðingu fyrir sjónarmiðum hans hvað það snertir og einnig því sem fram kom hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hér fyrir stundu, að við þurfum að sjálfsögðu að skapa þinginu svigrúm til að gaumgæfa vel mikilvæga lagabálka á borð við þennan.

Frá eigin brjósti langar mig til að segja þetta: Það sem mér finnst mestu máli skipta þegar þingið fær þingmál af þessu tagi til úrlausnar er tvennt sem horfa þarf til; annars vegar stefnumarkmiðanna, þ.e. pólitíkurinnar sem við þurfum að sættast um. Erum við sátt við það sem verið er að reyna að gera með lögunum? Síðan þurfum við að horfa til útfærslu á lagaákvæðum. Það sem slíkt á ekki að þurfa að taka ýkja langan tíma vegna þess að við höfum á að skipa sérfræðingum í þinginu sem farið geta í saumana á þeim þáttum. Hitt skiptir öllu máli að þingið átti sig á vilja sínum, á eigin vilja hvað varðar helstu stefnumarkmið, og það er það sem ég fagna sérstaklega við þessa umræðu að ég heyri að almennt eru þeir þingmenn sem tekið hafa til máls sáttir við stefnumarkmiðin. Þá held ég að unnt sé að afgreiða mál af þessu tagi á tiltölulega skömmum tíma þó að það sé viðamikið og í mörgum liðum. Og ef menn telja það vera mikilvæga réttarbót fyrir fólk sem á réttarbót þarf að halda þurfum við að leggjast þar saman á árarnar.

Ég vil ekki draga úr því að Alþingi hefur iðulega komið í veg fyrir alls kyns slys í útfærslu einstakra laga og lagagreina, ég geri ekki lítið úr því að þingið vilji rækja sínar skyldur hvað þetta snertir. En ég held að ef við erum sammála um stefnumarkmiðin, ef við áttum okkur á því að ekki er verið taka nein heljarstökk heldur er verið að bæta lífið og tilveruna fyrir fjölmargt fólk sem nýtur laganna og líka hin sem eiga að vinna með þessi lög, þá er mjög gott ef við getum afgreitt þessi lög.

Vikið var að móttökumiðstöð sem gert er ráð fyrir að komið verði á fót með lögunum. Það hefur verið til umræðu innan löggæslunnar að undanförnu, en umfang þessarar stofnunar mun að ráðast af þeim viðfangsefnum sem hún hefur átt við að glíma. Þá er staðreyndin náttúrlega sú að við eigum afar erfitt með að henda reiður á því hvað kann að gerast inni í framtíðinni. Stríðsátök á einum eða öðrum stað í veröldinni geta þarna skipt sköpum og slíkt veldur miklum sveiflum hjá okkur.

Talað er um reglugerðarheimildir og nauðsyn þess að tryggja sveigjanleika. Ráðherra getur aldrei sett íþyngjandi reglur en hann þarf að hafa það í huga og löggjafinn þarf að hafa það í huga að þau lög og það lagasvið, það sem lögfræðingar kalla lifandi lagasvið, tekur breytingum. Við þurfum að geta lagað lögin að slíkum breytingum. En ég ítreka að við slíka aðlögun getur aldrei verið um íþyngjandi reglur að ræða frá því sem greinir í sjálfum lagagrunninum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ég vonast til að málið geti sem fyrst komist til umsagnar þeirra aðila sem láta þessi mál til sín taka og vil vekja athygli á því aftur, með skírskotun til hraðans, að ferlið er orðið mjög langt. Ég minnist þess að þegar við kynntum skýrsluna sem vísað er til, í framsöguræðu minni í Þjóðmenningarhúsinu fyrir nokkru síðan. Þá voru þar saman komnir aðilar sem vinna með þessi lög frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, frá Rauða Krossinum, félagsþjónustunni o.fl. og luku lofsorði á breytingarnar og á tillögurnar í skýrslunni. Þeir sögðust vænta mikils af þeim og vonast til þess að þær næðu sem allra fyrst fram að ganga. Ég læt það verða lokaorð mín að koma óskum þessara aðila á framfæri við hv. Alþingi.