141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum enn á ný um frumvarp um breytingu á lögum um skráð trúfélög sem var vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar milli 2. og 3. umr. Það var gert sérstaklega til að fara betur í gegnum tvö atriði. Í fyrsta lagi þann skilning ákveðinna þingmanna að með frumvarpinu væri ætlað að draga úr framlögum til skráðra trúfélaga þannig að þau framlög sem rynnu úr ríkissjóði til lífsskoðunarfélaga yrðu á einhvern hátt á kostnað þeirra skráðu trúfélaga sem fá sóknargjöld sín í gegnum ríkissjóð. Það kom skýrt fram í málsmeðferðinni í nefndinni milli 2. og 3. umr. að alls ekki er ætlun stjórnvalda að frumvarpið hafi þau áhrif. Það er engin stoð fyrir því að framlög til lífsskoðunarfélaga feli í sér skerðingu á sóknargjaldaeiningunum ef þetta frumvarp verður að lögum og er mikilvægt að það komi skýrt fram.

Í öðru lagi var rætt nokkuð um skilgreiningu sem kemur fram í frumvarpinu á skráðum lífsskoðunarfélögum annars vegar og trúfélögum hins vegar. Á fundi nefndarinnar kom fram að skilgreiningin á sér fyrirmynd í norskri löggjöf, en Norðmenn frændur okkar settu sambærileg lög við þau sem hér eru kynnt fyrir einum 30 árum. Meiri hlutinn bendir á að skilyrði fyrir skráningu eru allítarlegri í þessu frumvarpi en eru í norsku lögunum og jafnframt að þessi skilgreining tekur mið af skilgreiningu gildandi laga um skilyrði fyrir skráningu trúfélaga.

Þá er rétt að benda á að sú nefnd sem rætt er um að veiti ráðherra álit á því hvort veita skuli lífsskoðunarfélagi skráningu samkvæmt þessu frumvarpi á sér einnig fyrirmynd í gildandi lögum um skráð trúfélög.

Einnig er rétt að árétta í þessu samhengi að nefndinni barst undir lok þessarar umfjöllunar erindi frá tveimur háskólamönnum sem vöktu athygli nefndarinnar á því að umræða sé um það í fræðasamfélaginu hvort rétt sé að vera með aðgreiningu í löggjöf á milli skilgreindra trúfélaga annars vegar og lífsskoðunarfélaga hins vegar. Það er athyglisverð umræða sem við fórum stuttlega yfir á fundi nefndarinnar en ljóst er að deildar meiningar eru meðal fræðimanna um það sjónarmið. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að sá tími kunni að koma að sú leið sem hér er farin, að draga fram mismunandi skilgreiningar á þessum félögum, verði endurskoðuð og í framtíðinni kunni að skapast skilyrði fyrir einni skilgreiningu á þessum félögum, en ég held að við séum ekki komin á þann stað enn.

Að lokum árétta ég að megintilgangur þessa frumvarps er að jafna aðstöðumun trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, félaga sem hafa að mörgu leyti svipaðan tilgang og starfsemi þó að efnislegt inntak þeirra gilda sem liggja starfseminni til grundvallar sé ólíkt, annars vegar trúarleg sannfæring og hins vegar veraldleg. Stóri ávinningur frumvarpsins er að leiðrétta þetta ójafnræði varðandi aðstöðu þessara félaga sem stangast á við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og hefur verið gagnrýnt árum saman.