141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðuna. Hann horfir einkum til framtíðar og nefnir að hér er ekki um að ræða endanlega afgreiðslu á málinu sem hefur mjög verið til umræðu áratugum saman í samfélaginu. Ég er sammála þingmanninum um það að klárlega er um framfaraskref að ræða, en það eru tiltekin atriði í málinu sem kalla á nánari skoðun. Eitt er það með sóknargjöldin, hvers konar fyrirbæri það er. Þarna er áréttaður skilningur meiri hlutans en augljóst er að ekki er samræmi á milli þess skilnings og þeirrar framkvæmdar sem verið hefur í innheimtu þeirra gjalda á liðnum árum, þó sérstaklega á ráðstöfun þeirra. Ef þau eru sannarlega félagsgjöld hlýtur það að kalla á ákveðna endurskoðun bæði á því hverjir eru látnir greiða þau gjöld og sömuleiðis hvernig þeim er deilt út til viðkomandi félaga.

Eitt af því sem ég nefndi við 2. umr. málsins var það atriði sem hv. þingmaður nefndi og lýtur að sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög. Ég áréttaði þar mína persónulegu skoðun sem er sú að í framtíðinni eigum við að stíga það skref að afnema sjálfkrafa skráningu en það varð niðurstaða meiri hlutans að stíga ekki það skref í þessum áfanga. Rétt hefði verið að opna þá umræðu og kalla á umsagnir aðila úr samfélaginu ef ætlun manna hefði verið að gera það, það var ekki hluti af þessu frumvarpi. En ég tel að það sé fyllilega réttlætanlegt að taka þá umræðu í allra nánustu framtíð.