141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að fara aðeins yfir hvernig málið snýr að mér. Ég á ekki sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hef þess vegna ekki komið að umfjöllun málsins. Það sem vakti athygli mína var póstur sem ég fékk sendan í morgun frá einstaklingi úti í bæ þar sem gerð var athugasemd og þingið hvatt til að fara vel yfir frumvarpið. Þar kemur fram ábending — ég náði því miður ekki að fara í andsvar við hv. þm. Skúla Helgason sem mælti fyrir nefndarálitinu — eða athugasemd um að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi ekki tekið nægilegt tillit til álits fræðimanna við háskólann sem leggja til sáttaleið varðandi hugtakið lífsskoðunarfélag.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það er kannski ekki svo auðvelt að átta sig á því hvernig hægt er að túlka það samkvæmt lögunum. Það kemur líka skýrt fram í áliti 1. minni hluta við 2. umr. málsins að það ákvæði er mjög opið, þ.e. um skráningu á svokölluðu lífsskoðunarfélagi. Svo er það þessi skilgreining. Við höfum mörg hver kannski ekki alveg sömu skoðun á því hvað er hægt að segja að sé lífsskoðunarfélag og ég held að mikilvægt sé að hafa það nokkuð skýrt.

Síðan langar mig að koma aðeins inn í þá umræðu sem snýr að þjóðkirkjunni, sem hefur aðeins borið á en var kannski meiri við 2. umr., þar sem meiri hlutinn áréttar við afgreiðsluna á milli 2. og 3. umr. það samkomulag sem var gert, þ.e. það samkomulag sem ríkið og þjóðkirkjan gerðu á sínum tíma um hvernig staðið væri að greiðslunni. Síðan hafa menn verið að gera það oft að bitbeini — ekki það að ekki sé eðlilegt að farið sé yfir málin, það er auðvitað æskilegt að gera það — en þá er það með þeim hætti að oft má skilja það þannig að þetta séu framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar. En við verðum að hafa í hyggju það samkomulag sem gert var milli þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins á sínum tíma. Við verðum auðvitað að hafa það í huga þegar við förum yfir þessa hluti.

Ef ég fer örlítið dýpra inn í þetta verð ég að viðurkenna að mér finnst umræðan í þjóðfélaginu oft og tíðum vera þannig, þó að ég sé ekki að saka neinn hv. þingmann um það, að það er eins og einhver ógn stafi af því starfi sem fer fram innan þjóðkirkjunnar. Hægt er að rifja upp til að mynda það sem gerðist í höfuðborginni, að aðalhættan stafaði af því að útbýtt yrði þar ákveðnu grunnriti kristinnar trúar. Maður staldrar náttúrlega við slíkt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst umræðan gagnvart þjóðkirkjunni vera oft og tíðum ansi óbilgjörn. Ef þetta væru nú stærstu vandamálin í íslensku þjóðfélagi væru hin ekki stór, virðulegi forseti, það fullyrði ég.

Mér finnst umræðan hafa oft gengið út í öfgar, þetta er kannski smáhlykkur í þeirri umræðu sem hér er og kannski smáútúrdúr, en ég verð að viðurkenna að mér finnst umræðan oft og tíðum hafa gengið of langt. Þjóðartrú okkar flestra er kristin trú, þó auðvitað sé trúfrelsi í landinu, ég geri mér fulla grein fyrir því og ber virðingu fyrir öðrum sem hafa aðrar lífsskoðanir í trúmálum en ég. En ég vildi koma aðeins inn á þessa hluti hér, virðulegi forseti.

Síðan vil ég ítreka það sem kemur fram í þeim athugasemdum sem hafa verið gerðar gagnvart því hvernig túlkunin er á lífsskoðunarfélögum. Það er sett inn í þann farveg, þ.e. fyrir skráningunni, að það sé dálítið matskennt og óljóst hvernig það geti orðið, og í frumvarpinu er vísað til norskra laga. Meira að segja kemur fram í áliti meiri hlutans að skilyrði séu strangari hér.

Ég vildi því koma örstutt inn í þessa umræðu, virðulegi forseti, til að vekja athygli á þeirri óbilgjörnu umræðu sem mér finnst oft vera gagnvart þjóðkirkjunni, þó að ég sé ekki að segja að hún hafi farið fram í dag á hinu háa Alþingi og ég er ekki að saka neinn hv. þingmann um það, en mér finnst hún samt vera þannig að við verðum að fara yfir það. Og síðan að vekja athygli á þeirri ábendingu sem við hv. þingmenn fengum, því oft höfum við fengið þær góðar og hefðum betur tekið mark á þeim fyrr, þ.e. þeirri athugasemd að við höfum ekki tekið nægilegt tillit til álits fræðimanna við Háskóla Íslands sem hefðu lagt til ákveðna sáttaleið. Ég ítreka það að ég hafði því miður ekki tök á að fara í andsvör við hv. formann nefndarinnar, hv. þm. Skúla Helgason, þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu en ég vildi aðeins koma inn á þetta, virðulegi forseti.