141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fara í stutt andsvar við hv. þingmann þó ekki væri nema til að gefa honum kost á örlitlum samræðum um þau atriði sem hann fór yfir í ræðu sinni. Ég nefndi það reyndar í erindi mínu áðan, framsöguerindi meiri hlutans, að við hefðum farið í gegnum þau sjónarmið sem komu frá tveimur ágætum háskólaprófessorum og lutu að því að sett væri inn í frumvarpið ein skilgreining fyrir þessi félög, hvort sem þau væru trúfélög eða lífsskoðunarfélög. Við fórum stuttlega yfir það með fulltrúum ráðuneytisins og bárum okkur saman við fræðimenn sem hafa komið að vinnu frumvarpsins. Það liggur fyrir að deildar meiningar eru um þá leið. Tillagan barst nefndinni fyrir rétt um hálfum sólarhring áður en umfjöllun um málið lauk í nefndinni þannig að við höfðum í sjálfu sér ekki mikinn tíma til þess að fara yfir þetta. En það er sjálfsagt og eðlilegt og afstaða manna er að sá tími kunni að koma, eins og ég nefndi í ræðu minni, að menn vilji steypa þessu saman í eina almenna skilgreiningu.

En ég vil þó árétta það sem skiptir kannski mestu máli að frumvarpið gengur ekki út á það að kveða upp úr um það í eitt skipti fyrir öll hver sé hin fræðilega skilgreining á trúfélögum annars vegar og lífsskoðunarfélögum hins vegar. Frumvarpið felur í sér að setja niður skilyrði sem þurfi að uppfylla til að þau félög fái skráningu og þau réttindi og skyldur sem því fylgja. Rétt er að árétta það að þau skilyrði eru ítarlegri og strangari en tíðkast í norskri löggjöf, sem var að öðru leyti fyrirmynd þessa frumvarp, og var þar að einhverju leyti tekið tillit til sjónarmiða umsagnaraðila sem komu fram þegar frumvarpið var fyrst lagt fram hér á þingi.