141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo við höldum aðeins áfram með þetta þá er mér vel kunnugt um það hvernig staðið hefur verið að niðurskurði í ríkisfjármálum og ég hef gert mjög margar alvarlegar athugasemdir við það vegna þess að mörgum hefur nefnilega verið hlíft við niðurskurði. Ég hef haldið margar ræður um það hvernig sumar stofnanir hafa þurft að taka á sig niðurskurð en aðrar hafa ekki þurft að gera það. Það er hins vegar ekki deilt um að þjóðkirkjan, sem við fjöllum hér um sérstaklega, fékk á sig mun meiri niðurskurð á sínum tíma en gat talist eðlilegt. Kveðið er á um það í fjárlögum í texta frá innanríkisráðuneyti, og snýr að rekstrargjöldum og hins vegar að sóknargjöldum, að til að þessi niðurskurður nái fram að ganga þurfi jafnframt að breyta þeim lögum. Þetta snýr að Kristnisjóði og sóknargjöldunum.

Þessi umræða getur þróast út í skemmtilega vinkla en eigi að síður er það að minnsta kosti mín skoðun að við eigum að standa vörð um kristna trú, það er okkar þjóðartrú. Ég get að sumu leyti tekið undir það sem hv. þingmaður segir að menn mega auðvitað skilgreina hvernig þetta er, en ég leyni því ekki að mér finnst margir hverjir fara fram með miklu offorsi gagnvart þjóðkirkjunni. Við höfum að mínu mati verið mjög umburðarlynd gagnvart öðrum trúfélögum og borið virðingu fyrir trúfrelsi og skoðunum annarra. Þá held ég líka að við eigum að geta krafist þess, þar sem þetta er okkar þjóðartrú, að hinir eigi að bera virðingu fyrir henni. Það er nú bara þannig í mínum huga.

Það væri áhugavert að taka umræðu um það hvernig staðið hefur verið að niðurskurði í fjárlögum, en ekki er um það deilt að kirkjan hefur farið illa út úr því og er búið að viðurkenna það af hálfu stjórnvalda að hún hefur orðið fyrir mun meiri niðurskurði en ráð var fyrir gert vegna þeirra mistaka að uppfæra ekki þá tvo fjárlagaliði sem ég nefndi.