141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er árið 2013 og ekki árið 1813 og jafnvel ekki árið 1913 og ekki lengur sá tími að menn geti komið í ræðustól Alþingis eða á vettvang þar sem skipað er málum þjóðarinnar og sagt: Við erum svo umburðarlynd að við þolum viðhorf annarra. Það er ekki þannig. Breytingar sem orðið hafa á samfélaginu hafa líka snert uppbyggingu þjóðkirkjunnar og fjölda þjóðkirkjumanna. Ég hygg að fjöldi þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni hafi á nokkrum áratugum farið úr um það bil 90% af íbúum Íslands niður í 75%. Það er að sjálfsögðu mikill meiri hluti. Þjóðkirkja Íslendinga, hin evangeliska lúterska íslenska þjóðkirkja ber höfuð og herðar yfir öll önnur trúfélög á Íslandi en hún hefur ekki þá — ég vil ekki kalla það einokunarstöðu, en hún hefur ekki þá yfirburðastöðu sem hún áður hafði. Það á sér forsendur í meiri „sekúlariseringu“ eins og það er kallað á fínu máli í samfélaginu; fleiri vilja standa utan safnaða eða vera í lífsskoðunarfélögum. Það á sér líka forsendur í því að hreyfing er í þá átt að menn vilji iðka trú sína af enn meiri krafti og meiri fítonsanda en gert er í þjóðkirkjunni, eins og við sjáum af ýmsum duglegum kristnum hreyfingum. Þá eru einnig forsendur í því að hingað hefur flust fólk sem eru Íslendingar eins og við og hér hefur komið upp fólk sem vill leggja stund á önnur trúarbrögð en þau sem hér hafa verið uppi við, vegna þess að við höfum færst nær heiminum í þessu efni. Þetta verðum við umfram allt að virða. Það er verið að gera með þessu frumvarpi og það er líka verið að gera með aðskilnaði boðunarstarfs (Forseti hringir.) og fræðslustarfs í skólum og kirkjum.