141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

155. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Markmið frumvarpsins er að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með sama hætti og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu á sínum tíma. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi fyrir börn, óháð réttindum fullorðinna. Vekjum við í nefndinni sérstaka athygli á því að þrátt fyrir að aðildarríki að samningnum séu skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn veitir þeim er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti, þ.e. vegna svokallaðrar tvíeðliskenningar, sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi, þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna er ekki hægt að beita barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og staðan er í dag. Því telur nefndin að hér sé mjög mikilvægt mál og að með lögfestingu barnasáttmálans yrði vægi hans hér á landi mun meira þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum við úrlausn mála varðandi börn.

Nefndin fékk nokkurn fjölda einstaklinga á sinn fund til að fjalla um málið og er það rakið í nefndarálitinu en hvað varðar tilurðina að því að þetta mál er nú komið inn í 2. umr. er að frumvarpið var samið af Þórhildi Líndal fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið árið 2009. Leggja átti frumvarpið fram á 138. löggjafarþingi en af því varð ekki. Það var lagt fram tveimur þingum síðar en komst því miður ekki til umræðu. Nú er það lagt fram af einum fulltrúa frá hverjum þingflokki óbreytt frá 140. löggjafarþingi en þá voru breytingar gerðar á því til samræmis við breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks, sem höfðu verið gerðar frá því að frumvarpið var samið tveimur árum áður. Einnig er lögð til breyting á lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sem miðar að því að fullnægja skilyrðum 37. gr. c samningsins um að við vistun sakhæfra barna skuli halda þeim aðskildum frá fullorðnum föngum.

Við lögðum áherslu á mikilvægi fræðslu og þess að kostnaðarmat vegna innleiðingarinnar væri framkvæmt. Vakin var sérstök athygli á nokkrum sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að bregðast við til að hægt sé að ljúka lögfestingarferlinu eins og það leggur sig. Bent er á að sjaldan hefur verið vísað í ákvæði sáttmálans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum þrátt fyrir þá staðreynd að sáttmálinn var fullgiltur af íslenskum stjórnvöldum fyrir 20 árum þannig að það hefur vantað upp á, að okkar mati, mjög eindregið og afdráttarlaust vægi sáttmálans fyrir íslenskum rétti vegna þess sem ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, út af hinni svokölluðu tvíeðliskenningu þar sem lögfesta þarf alþjóðasamninga til að þeir hafi bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna er þetta mál mjög mikilvægt og við lögðum mikið kapp á það í allsherjar- og menntamálanefnd í vetur að ná að ljúka umfjöllun um þetta frumvarp til laga um þennan samning og löggildingu hans áður en veturinn yrði úti og kjörtímabilið á enda runnið þannig að þetta mál mundi ekki bíða lengur. Eins og ég nefndi áðan eru liðin þrjú ár, á fjórða ár, síðan það kom fram, þannig að við teljum mjög áríðandi að þessu ljúki og bind ég vonir við að innan fárra daga verði það komið hér í atkvæðagreiðslu eftir 3. umr.

Umsagnaraðilar voru flestir hlynntir lögleiðingunni og fagna fram komnu frumvarpi og leggja áherslu á þýðingu og mikilvægi þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur á Íslandi sem muni ótvírætt styrkja stöðu barna á Íslandi, sem er markmiðið með lögleiðingu sáttmálans. Þess vegna er það kannski undrunarefni af hverju sáttmálinn var ekki lögfestur fyrr á þessum 20 árum svo að hann hefði raunverulegt vægi til að styrkja stöðu barna með eins afgerandi hætti og efni standa til út frá sáttmálanum. Barnasáttmálinn og valfrjálsar bókanir hans veita börnum víðtæka vernd gegn hvers kyns misneytingu, ofbeldi og annarri vanvirðandi meðferð, auk þess að festa í sessi rétt barna sem sjálfstæðra einstaklinga til ýmissa réttinda, jafnt borgaralegra og stjórnmálalegra sem og félagslegra og menningarlegra.

Meðal þeirra sjónarmiða sem fram komu var að vakin var athygli á að lögfesting barnasáttmálans mun fela í sér kynningu á sáttmálanum og verða til þess að bæði börn og fullorðnir einstaklingar þekki betur þau réttindi sem sáttmálinn hefur að geyma. Er það önnur og mikilsverð hlið á lögfestingu sáttmálans að fram fer víðtæk kynning á þeim réttarbótum sem lögleiðingin hefur í för með sér. Það er gott tækifæri til að vekja athygli á sáttmálanum, gildum hans og réttindum barna. Það er mikilvægt þar sem nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir vegna skorts á fræðslu og kynningu á sáttmálanum hér á landi á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að hann var samþykktur.

Við töldum mikilvægt að fyrir lægi kostnaðarmat á innleiðingunni. Við sendum fjármála- og efnahagsráðuneytinu ítrekað sérstakt erindi þess efnis þar sem við óskuðum eftir kostnaðarmati. Við fengum slíkt mat ekki framkvæmt og í niðurlagi bréfs sem var sent til okkar fyrir hönd ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Með breytingu á þingskapalögum Alþingis á 139. þingi var bætt við þau ákvæði um að stjórnarfrumvörpum skuli fylgja mat á kostnaði fyrir ríkissjóð við lögfestingu. Ekki var haft samráð við fjármálaráðuneytið um þetta lagaákvæði sem ráðuneytið telur fela í sér óþarflega ósveigjanlega tillögu við framlagningu frumvarpa þegar um brýn málefni er að ræða sem þarfnast skjótra viðbragða auk þess sem augljósir annmarkar eru á ákvæðinu. Í því er fortakslaust gerð kvöð um umsögn með öllum stjórnarfrumvörpum en auðsætt má vera að það hefði átt að undanskilja frumvörp til fjárlaga o.s.frv. Var óskað eftir að þessum sjónarmiðum og fleirum væri komið á framfæri við nefndina vegna þessarar vinnu.“

Við það verður að búa og það teljum við að komi í sjálfu sér ekki að sök þó að heppilegt hefði verið að það álit hefði legið fyrir áður en vinnan færi fram. En um það er ekki að ræða, við fengum slíkt kostnaðarmat ekki gert og viljum við alls ekki láta það standa í vegi fyrir því að frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði lögfest á Íslandi með öllum þeim ótvíræðu réttarbótum og almennum kynningum og upplýsingum um réttarstöðu bæði barna og fullorðinna sem það hefur í för með sér.

Ástæða er til að þakka hv. 1. flutningsmanni málsins eftir að hafa flutt það aftur, hv. þm. Helga Hjörvar fyrir eftirrekstur og fylgni í því að klára málið. Það hafði jákvæð áhrif á vinnsluferlið að finna það kapp og þá ákveðni sem var á bak við flutning þess af flutningsmönnunum, sem ég nefndi hér áðan, einn úr hverjum þingflokki, að það væri mikil alvara í því að þetta mál gengi fram og kláraðist, enda gekk vinnan í nefndinni mjög vel fyrir sig í alla staði og málið rann þar hnökralaust fram. Umsagnaraðilar voru jákvæðir, mæltu með lögleiðingu sáttmálans og fögnuðu fram komnu frumvarpi og lögðu áherslu á þýðingu og mikilvægi þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri lögfestur á Íslandi og undirstrikuðu og færðu máttug rök fyrir því með hvaða hætti það styrki stöðu barna á Íslandi að lögleiða sáttmálann.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir álitið rita auk mín hv. þingmenn Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Á þessari upptalningu má glöggt nema að um þetta mál, eins og um flest hin mikilvægu réttindamál, var þverpólitísk samstaða, þvert á alla þingflokka, og skiptir það mjög miklu þegar er verið að leiða mál til lykta — eftir tveggja áratugavinnu með einum öðrum hætti og fjögurra ára bið frá því að Þórhildi Líndal var falið af ráðuneytinu að skrifa frumvarpið — að við lokavinnsluna, á lokasprettinum í fagnefndinni skapist um málið þverpólitísk samstaða. Allir þeir fjölmörgu umsagnaraðilar má segja að hafi undirstrikað þá breiðu sátt og samstöðu í samfélaginu sem er á bak við lögleiðingu sáttmálans, hvort sem það voru sveitarfélögin, Barnaverndarstofa, Barnaheill, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Persónuvernd, UNICEF á Íslandi, Öryrkjabandalagið, Siðmennt og fleiri sem komu fyrir nefndina, allt bar að sama brunni, mælt var með því að frumvarpið yrði samþykkt og heiti ég á Alþingi að ljúka þessu máli þannig að það gangi til atkvæða og 3. umr. og svo til seinustu atkvæðagreiðslunnar svo fljótt sem verða má þannig að engin hætta sé á að þetta mál brenni hér inni á þessu lokaþingi kjörtímabilsins.