141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er komin í þennan ræðustól nú til þess að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir umfjöllun um þetta frumvarp um endurupptöku og afgreiðsluna sem hér liggur fyrir, ekki aðeins núna á þessu þingi heldur einnig á 140. þingi þegar nefndin afgreiddi frá sér nefndarálit með jákvæðum hætti enda þótt það hafi ekki náð að komast inn í þingið til afgreiðslu þá.

Málið snýst um, eins og hér kom fram, að innleiða nýtt fyrirkomulag við umfjöllun og meðferð beiðna um endurupptöku, hvort heldur er í einkamálum eða sakamálum fyrir Hæstarétti, og einnig hvað varðar áfrýjunarleyfi, að allt þetta fari í sömu meðferð. Eins og við vitum er meginreglan að dómar Hæstaréttar skuli vera endanlegir en endurupptaka er og hefur verið heimiluð samkvæmt íslenskum lögum. Hún er oft nauðsynleg eins og reynslan sýnir, nú síðast í kjölfar ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu þegar Hæstiréttur tók upp hið svokallaða Vegas-mál sem var orðið 15 ára gamalt og dæmdi að nýju í því fyrir síðustu áramót og sneri dómnum algerlega við.

Í þessu frumvarpi eru engar efnislegar breytingar gerðar á þeim kröfum eða skilyrðum sem eru til endurupptöku. Málið er aðeins flutt til þess að tryggja að málsmeðferð hvað varðar beiðnir um endurupptöku mála verði hafin yfir allan vafa, að hún verði óháð og gagnsæ þannig að dómarar ákveði ekki hvort eigin dómar verði teknir til endurskoðunar og enn fremur að ákvörðunin verði gagnsæ, þ.e. að hún verði birt opinberlega eins og gildir um dóma Hæstaréttar.

Þetta fyrirkomulag um óháðan aðila sem metur þörf fyrir endurupptöku þekkist í nágrannalöndum. Á Norðurlöndunum er tvenns konar fyrirkomulag á þessu, annars vegar er í Danmörku sérstakur dómstóll sem fjallar um slíkar beiðnir og reyndar fleiri mál, en í Noregi er sérstök nefnd sem er skipuð á grunni norsku dómstólalaganna. Það er það fordæmi sem stuðst er við hér og sú leið sem farin er í frumvarpinu með breytingu á lögum um dómstóla, þ.e. dómstólalögunum, og af því leiðir einnig breytingar á lögum um meðferð sakamála og um meðferð einkamála.

Við flutningsmenn, sem auk þeirrar sem hér stendur eru hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þráinn Bertelsson, Margrét Tryggvadóttir og Skúli Helgason, gerðum nokkrar breytingar á frumvarpinu á milli þinga, m.a. eftir samráð við réttarfarsnefnd. Ég verð að segja að þær breytingar sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur gert á frumvarpinu eru allar til bóta. Þær eru eingöngu til áréttingar og til þess að styrkja markmið frumvarpsins að mínu viti og það sem meira er og mestu skiptir, náðst hefur pólitísk samstaða með fulltrúum allra þingflokka um málið. Ég vænti þess, frú forseti, að það verði til þess að málið nái fram að ganga hér í þinginu fyrir lok vorþingsins.

Endurupptaka dóma er nefnilega mikilvæg mannréttindi, við skulum ekki gleyma því. Þótt dómur sé fallinn getur verið og hefur sýnt sig að það getur verið nauðsynlegt að taka mál upp að nýju til þess m.a., og einkum og sér í lagi, að saklausir menn séu ekki dæmdir með röngu. En slíkar ákvarðanir, frú forseti, þurfa að vera hafnar yfir allan vafa, gagnsæjar og í armslengdarfjarlægð frá þeim sem kváðu upp dóminn og eiga að fjalla um hann aftur.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna í allsherjar- og menntamálanefnd og fagna því að málið sé nú komið hér til 2. umr.