141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[16:39]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða og mig langar aðeins til að koma inn í hana.

Í ávarpi mínu við þingsetningu í haust, 11. september sl., sagði ég meðal annars, með leyfi forseta:

„Nú eru starfandi tvær rannsóknarnefndir samkvæmt ályktun Alþingis, um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Þess er að vænta að þær ljúki störfum fyrir eða um næstkomandi áramót. Þó að lögin sem Alþingi setti fyrir rúmu ári um rannsóknarnefndir hafi verið mjög mikilvægur þáttur í því að efla enn frekar eftirlitsvald Alþingis tel ég engu að síður að við alþingismenn verðum að sýna varkárni og ábyrgð við beitingu þessa valds. Við þurfum ekki aðeins að horfa til þess að störf rannsóknarnefnda eru kostnaðarsöm og fyrirhafnarmikil heldur er einnig mikilvægt að spyrja sig hvort starf þeirra standi undir væntingum og skili raunverulegum árangri fyrir samfélagið.

Við megum ekki vera svo uppnumin af rannsóknarnefndum að við förum að líta á þær sem bót allra meina. Skipun nefndanna verður þá aðalmálið en ekki niðurstöðurnar. Förum því varlega í þessum efnum og gætum þess sem er lykilatriðið að fylgja eftir niðurstöðum slíkra nefnda svo þær rykfalli ekki á borðum okkar. Niðurstöður sem ekkert er gert með eru lítils virði.“

Ástæður þessara viðvörunarorða minna voru ærnar. Frá miðju síðasta ári hef ég þurft að gera bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja fé til að halda áfram starfsemi þeirra tveggja rannsóknarnefnda sem þá störfuðu og eru enn að störfum. Fyrir lipurð hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýjar Harðardóttur, fékkst greiðsluheimild þótt hvorki væri fé í fjárlögum né fjáraukalögum til að halda starfsemi rannsóknarnefndanna áfram. Við fjárlagagerðina í haust voru enn gerðar bráðabirgðaráðstafanir, fé fékkst í fjáraukalögum 2012 og svo var sett fé til reksturs rannsóknarnefndanna tveggja fram á þetta ár.

Eins og áætlanir eru núna dugar það fé sem ætlað er á árinu 2013 ekki til að ljúka starfi rannsóknarnefndanna um fall sparisjóðanna og um Íbúðalánasjóð. Fjárveitingarnar sem komu til verksins duga ekki til að klára þær rannsóknir sem unnið er að. Þetta þing samþykkti í fyrrahaust að setja á stofn nýja rannsóknarnefnd, þ.e. um einkavæðingu bankanna. Allt gott er með það, mikilvægt mál sem virkilega er ástæða til að skoða og rannsaka, en engir fjármunir eru til svo hægt sé að hefja þá rannsókn. Þó að forseti þingsins færi með tilstilli forsætisnefndar fram á það við meiri hluta fjárlaganefndar að fá fjárveitingar til að hægt væri að hefja það verk og klára þær rannsóknir sem nú standa yfir varð meiri hluti fjárlaganefndar ekki við þeim beiðnum.

Sem betur fer var sagt skýrt í haust að ekki væri hægt að setja rannsóknina á einkavæðingunni á bönkunum af stað fyrr en núverandi rannsóknarnefndir hefðu skilað af sér og heldur ekki fyrr en búið væri að tryggja fé til að standa undir útgjöldum við rannsóknina.

Nú er sem sagt lagt til að enn ein ný rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar, rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Hún ætti þá að vera næst í biðröðinni á eftir rannsókninni á einkavæðingunni. Ég held að allir hljóti að sjá að hér þarf að stíga varlega til jarðar.

Eins og kom fram í ávarpsorðum mínum við þingsetninguna gerði ég ráð fyrir því að rannsóknarnefndirnar tvær, um sparisjóðina og Íbúðalánasjóð, mundu ljúka störfum um áramót. Því miður hefur sú von brugðist. Ég veit á þessari stundu ekki hvenær þær skila af sér. Það er þegar ljóst að það verður ekki nú í janúar og ég hef ákveðnar efasemdir um að það takist í febrúar. Mér er þó ljóst að í þeim báðum er unnið af kappi og ég get sagt hér að það er unnið dag og nótt af miklu kappi og eljusemi við að ljúka þessu verki. Málið er hins vegar þess eðlis að mér er ókleift að setja einhvern lokapunkt á þá rannsókn. Nefndirnar verða að hafa visst sjálfræði. Ég hef aðeins getað komið þeim skilaboðum á framfæri að eftir niðurstöðu nefndanna sé beðið með vaxandi óþreyju.

Við munum öll hvernig þetta var með rannsóknarnefnd Alþingis. Tímaplön hennar stóðust ekki. Það var orðið mikið óþol hjá okkur þingmönnum að fá þá skýrslu þó að það sé nú gleymt. Það gleymdist fljótt þegar menn sáu hversu vel var vandað til verka hjá þeirri nefnd.

Ég held að það sé alveg ljóst eins og kom vel fram í umræðunum fyrir jólin um breytingar á lögum um rannsóknarnefndir að við þurfum að læra af þeirri reynslu sem við höfum nú af starfi þriggja rannsóknarnefnda, ekki hvað síst að undirbúa rannsókn vel og gera raunhæfar fjárhags- og tímaáætlanir. Ég mun leggja á það mikla áherslu að sú rannsókn sem Alþingi hefur þegar ákveðið á einkavæðingu bankanna verði vel undirbúin og ekki sett af stað fyrr en fyrir liggja þær áætlanir sem ég hef nefnt.

Ég hef sem sagt varað við því að fara í það núna að samþykkja tillögu um nýja rannsóknarnefnd áður en fyrir liggja betri áætlanir um kostnað og alla tilhögun. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér er um háar fjárhæðir að ræða. Ég get ekki ímyndað mér annað en að svona rannsókn kosti hátt í 100 millj. kr., kannski meira og kannski miklu meira.

Ég vil svo minna á að fyrir liggur nú þegar ítarleg skýrsla um starfsemi lífeyrissjóðanna. Mér er sagt að kostnaðurinn við gerð þeirrar skýrslu hafi verið á bilinu 80–100 milljónir. Og ég spyr: Á ekkert að gera með þá skýrslu?

Það er ekki alveg rétt sem sagt er í greinargerð með þessari tillögu, að þessi skýrsla sé skýrsla lífeyrissjóðanna. Þetta er skýrsla Hrafns Bragasonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, sem skipaði rannsóknarnefndina með tveim öðrum. Nefndin var vissulega ekki á vegum Alþingis eins og ákveðið var í ályktuninni sem við köllum 63:0, en skiptir það öllu máli? Hrafn Bragason og hans fólk hafði ekki rannsóknarheimildir eins og lögin um rannsóknarnefndirnar segja, en ég hef hvergi séð að hann eða nefndin sem hann var í forustu fyrir hafi kvartað yfir því að hafa ekki fengið umbeðin gögn. Við skulum líka muna að þessi nefnd var ekki útvalin af forustu lífeyrissjóðanna. Hún var skipuð af sáttasemjara ríkisins. Mér finnst mikilvægt að halda þessu öllu til haga því að hér er um mikla peninga að ræða og mjög tímafrekt verkefni.

Ég beitti mér fyrir því að skýrslu Hrafns Bragasonar o.fl. um lífeyrissjóðina yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég veit að haldinn var kynningarfundur um málið. Hrafn Bragason og nefndin mætti þar, en ég verð því miður að segja að það eru mér vonbrigði að hafa ekki séð álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þessa skýrslu upp á mörg hundruð síður.

Ég vísa aftur í þau orð sem ég viðhafði við þingsetninguna um að við verðum að fara að með gát og stofna ekki til rannsóknarnefnda nema full og brýn þörf sé á og málið undirbúið með fjárveitingu og góðum áætlunum um verkið.

Ég legg því til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki málið til frekari umræðu milli fyrri og síðari umr. Ég óska eftir því að málið fari til nefndar og bið um að yfir þessar athugasemdir mínar verði farið vandlega áður en lengra verður haldið. Það er langt í land með þær rannsóknir sem er búið að samþykkja hér og enginn vilji var til að setja fjármuni í við fjárlagagerðina. Jafnvel komu þar að verki þingmenn sem flytja þessa þingsályktunartillögu sem er frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.