141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða.

16. mál
[17:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið á dagskrá þingsins. Ég er meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu um skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna. Það kemur m.a. til vegna þess að málið var lagt fyrir á síðasta þingi. Þegar það fór fyrir þingið var hægt að koma að breytingum varðandi lengd rannsóknarinnar. Upphaflega tillagan gekk út á það að rannsaka árabilið 2003–2009, en mér fannst það ekki nóg því að það var akkúrat sami tími og lífeyrissjóðsskýrslan sjálf náði yfir. Ég taldi að rannsaka þyrfti starfsemi lífeyrissjóðanna allt frá setningu laga sem tóku gildi á árinu 1998, lög nr. 129/1997, um starfsemi lífeyrissjóðanna. Samkvæmt þeim lögum fengu lífeyrissjóðirnir nýjar heimildir til fjárfestinga í aðdraganda einkavæðingar bankanna hinnar fyrri. Þarna voru lífeyrissjóðirnir farnir á hinn svokallaða gráa markað áður en hlutabréfamarkaðurinn varð alvörumarkaður hér á landi. Ég tel því að rannsóknin verði að hefjast þar sem breytingin var gerð á lögunum því að þá voru gerðar umtalsverðar breytingar varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Það stendur í tillögunum. Vegna þess að boðað er að málið fari aftur inn í nefnd tel ég að við ættum að leggja fram breytingartillögu við þingsályktunartillöguna varðandi lengd rannsóknarinnar í þessa átt. Samkvæmt tillögunni stendur að rannsóknin eigi að ná til ársloka 2011 en ég tel að við eigum að setja inn breytingartillögu, að hún eigi að ná til ársloka 2012 því að á síðasta ári var gengið frá hinum svokölluðu afleiðusamningum lífeyrissjóðanna. Þar var landað enn einni glæsilegu niðurstöðunni að mati stjórnenda lífeyrissjóðanna þegar lífeyrissjóðirnir þurftu að borga upp á milli 50 og 60 milljarða, sem er raunverulega tapað fé sjóðfélaga.

Virðulegi forseti. Ég minni á að lífeyrissjóðirnir töpuðu a.m.k. 500 milljörðum — 500 milljörðum — í hruninu og það er mikið fé. Ég tel að sú upphæð sé ekki öll komin fram því að ég hef fengið ábendingar um að eftir hrunið hafi verið dreift tapi sem er ósýnilegt á ársuppgjör sjóðanna 2009, 2010, 2011 og svo 2012. Þannig er hægt að fara með það og minnka áfallið sem lífeyrissjóðsþegar urðu fyrir, bæði andlega og peningalega í hruninu.

Það er mikil ábyrgð að fara fyrir lífeyrissjóði. Það er mikil ábyrgð að sitja í stjórn lífeyrissjóðs. Það er mikil ábyrgð að reka lífeyrissjóð. Þess vegna vil ég að einnig verði rannsakað hversu mikið fer í rekstrarkostnað hjá lífeyrissjóðunum. Þegar ég gerði úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna 2007 var rekstrarkostnaður almenna kerfisins 3 milljarðar — 3.000 milljónir. Það þarf marga til þess að greiða í lífeyrissjóð þar til hann fer að hafa burði til þess að sýna ávöxtun þegar rekstrarkostnaðurinn er svona mikill. Kannski stafar það af því að lífeyrissjóðirnir eru svo margir. Þess vegna held ég að fara þurfi í heildarendurskoðun á því til að tryggja réttindi sjóðfélaga til framtíðar, að fækka lífeyrissjóðunum og gera upp hið svokallaða hrun er snýr að sjóðunum.

Ég tek undir orð sem komu fram í umræðu í dag í málinu, enginn getur staðið fyrir rannsókn á sjálfum sér. Fram kom í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að líklega hefði rannsóknin sem lífeyrissjóðirnir fóru sjálfir af stað með raunverulega kostað 80–100 milljónir. Þar er enn verið að eyða fé lífeyrissjóðanna, því að lífeyrissjóðirnir greiddu þessa rannsókn sjálfir. Ég hef farið yfir þá skýrslu. Margt gott er í þeirri skýrslu sem varpar ljósi hér á eitthvað af því sem gerðist hér, en að mínu mati stendur kaflinn upp úr sem er samantekt um tengda aðila. Viðurkennt var á þeim fundi sem þessir aðilar boðuðu til hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ákvæði vantaði í lög um lífeyrissjóði, þ.e. skilgreiningu á því að lífeyrissjóðirnir mættu ekki hver fyrir sig kaupa hlutabréf í félögum tengdra aðila. Þær upplýsingar eru mjög sláandi.

Þess vegna er sú skýrsla, sem þessir menn gerðu og sem farið hefur verið yfir hér, mjög gott innlegg í rannsóknina sem fara á fram þegar búið verður að samþykkja þetta mál. Sú vinna er ekki alveg unnin fyrir gýg. Þess vegna styð ég að hún verði notuð sem hliðarafurð við rannsóknina því að þar eru miklar upplýsingar. Þar er t.d. farið yfir sögu lífeyrissjóðakerfisins alls og þróun í lagasetningu hér á landi o.s.frv. Það er því mjög gott að hafa það til hliðsjónar.

Ég tek líka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að nefndina vantaði rannsóknarheimildir. Nefndin hafði ekki heimildir fyrir því að benda á brot í starfi, brotalamir eða að framdir hefðu verið refsiverðir verknaðir o.s.frv. En með þessari tillögu, þar sem er raunverulega verið að framfylgja stefnu þingsins sjálfs, er lagt til að rannsóknarnefndin fái mjög víðtækar heimildir.

Mig langar að benda á fyrningarfrest. Ég vil að málinu verði hraðað í gegnum þingið. Það eru ekki margir þingdagar eftir. Það er nauðsynlegt að þingið samþykki að rannsókn sem þessi fari fram á lífeyrissjóðunum. Ég hef skilning á því sjónarmiði að það er bagalegt og náttúrlega óþolandi að Alþingi sjálfu, sem fer með fjárveitingavald landsins, skuli vera neitað af nefndarmönnum í fjárlaganefnd um fé til rannsóknarinnar. Raunverulega er ekki séð til þess að skaffað sé fjármagn á móti til þessara rannsókna. Það gengur ekki til lengdar en ég veit að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur lagt í mikla vinnu við að afla fjár hjá ríkisvaldinu fyrir þeim rannsóknum sem eru nú þegar í gangi og eru í pípunum.

Ég minni á að Alþingi á að vera sjálfstæð stofnun. Alþingi ber að fara í þær rannsóknir sem samþykktar eru í þinginu. Þess vegna verður að tryggja fjármagn til þessara rannsókna.

Úr því að búið er að fara yfir það lítillega að breyta þurfi lögunum um rannsóknarnefndir Alþingis vil ég stinga því inn í umræðuna að ég tel mikilvægt að það þurfi aukinn meiri hluta þingmanna til þess að samþykkja rannsókn til að slíkt sé ekki notað í pólitískum tilgangi, í pólitískum skollaleik. Rannsókn um starfsemi lífeyrissjóðanna á að fara algjörlega mótatkvæðalaust í gegnum þingið, vegna þess að við þingmenn höfum nú þegar samþykkt að rannsóknin skuli fara fram. Þetta er einungis forsmekkurinn að því að rannsóknarnefnd sé sett á fót. Ég tel að þegar málið hefur farið í gegnum þingið sé þingið búið að virkja málið. Þá þarf ekki að ræða það frekar, þá liggur heimild fyrir því að fara í rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Svo í framhaldinu, með nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar, verður hægt að finna fjármagn til að setja nefndina á laggirnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra enda er tími minn á þrotum. Ég fagna því að málið sé loksins komið aftur fyrir þingið því að það var orðið fullburða á síðasta þingi. Einhvern veginn týndist það þó fyrir þinglok. Þess vegna er nauðsynlegt að gera þá breytingu að taka árið 2012 inn í rannsóknina vegna uppgjörs á afleiðusamningum og koma þessari rannsókn af stað, því að um er að ræða stóran þátt í bankahruninu á Íslandi. Það verður að rannsaka því að almenningur veit að hér er mikið í húfi. Við verðum að fá að vita það hvað gerðist í lífeyrissjóðunum í aðdraganda hrunsins.