141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

453. mál
[17:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er ánægjulegt að sjá hér sérsniðna löggjöf um afhjúpendur. Mig langar að benda hv. þm. Róbert Marshall á eitt en hann rekur í greinargerð að einnig þurfi að setja reglur á sviði fjölmiðla til verndar heimildarmönnum.

Það eru nú þegar í gildi ný lög, þau voru sett fyrir um það bil tveimur árum, sem eru bestu mögulegu lög sem hægt er að hafa á þessu sviði og eru miðuð við belgísku lögin um vernd heimildarmanna. Það er líka vert að benda á að mjög margt í þessum tillögum er nú þegar í vinnslu í stýrihópnum sem er að vinna að hinni svokölluðu IMMI-löggjöf, vinnu sem tengist þingsályktun sem var samþykkt árið 2010 um að Ísland taki sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Þar förum við sérstaklega í mjög margt af því sem hér er. Án efa verður hægt að nýta margt af því sem hér kemur fram í þeirri vinnu, en nú þegar er komin í forsætisráðuneyti mjög mikilvæg lagfæring á afhjúpendalögum hérlendis. Það hefur verið þannig í opinberu stjórnsýslunni að starfsmenn hafa haft afar misvísandi reglugerðir um það hverju þeir eigi að segja frá og hverju þeir megi ekki segja frá. Það hefur verið algjörlega tekið í gegn og einfaldað. Þannig að ég vona að það komi úr „tumblunni“ í ráðuneytinu og mér skilst að það eigi að koma inn í þingið fljótlega.

Það sem er líka mikilvægt og við höfum rætt töluvert mikið — ég veit ekki hvort hv. þm. Róbert Marshall hefur velt því fyrir sér en alveg örugglega því að ég veit að þingmaðurinn vann með mjög mörgu góðu fólki við gerð þessa lagatexta — er hvaða leið afhjúpari eða manneskja sem er að vinna í fyrirtæki á að fara til þess að fá ráðgjöf um hvernig eigi að leka upplýsingunum. Sumar upplýsingar eins og réttilega kemur hér fram eru innanhússmál og stundum er enginn innan fyrirtækisins tilbúinn til að hlusta á ábendingar starfsmannsins. Þá ætti viðkomandi að fara eitthvert annað með þær. Ég hef svolítið pælt í þessu og rætt það víða, bæði hérlendis og erlendis, hvaða leið viðkomandi getur farið og hvert hann getur snúið sér.

Stundum er best að fara með upplýsingarnar beint í fjölmiðla. Stundum er best að reyna að koma þeim á framfæri innan fyrirtækisins eða opinberu stofnunarinnar. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður hafi ígrundað þetta og hvort þetta sé hluti af frumvarpstillögunum.

Þá langar mig jafnframt að spyrja að því hvaða lög þingmaðurinn skoðaði þegar hann var að fara yfir 12. gr., um rétt uppljóstrara til skaðabóta, eða afhjúpenda eins og ég kýs að kalla þessa iðju. Mér finnst það orð minna gildishlaðið. Við skoðuðum þetta mjög gaumgæfilega á sínum tíma og mjög margt í þessu frumvarpi er sambærilegt því sem var í greinargerð sem fylgdi þingsályktuninni sem samþykkt var í júní 2010. Við skoðuðum svolítið löggjöfina í Bandaríkjunum, en það á kannski ekkert endilega við hér. Mig langaði að heyra hvort löggjöfin í Evrópu hefði verið skoðuð í tengslum við þetta.

Segjum að það sé leki um stórkostlega vanrækslu eða fjársvik eða eitthvað slíkt og ríkið mundi hreinlega verða af miklum peningum ef ekki væri blásið í flautuna. Í Bandaríkjunum er það þannig eða var þannig — það er reyndar verið að eyðileggja afhjúpendalöggjöfina í Bandaríkjunum einmitt þessa dagana — að afhjúpandinn fékk ákveðna prósentu af þeim peningum sem hann sparaði ríkinu. Við skoðuðum þetta svolítið fyrir íslenska rammann, hvort slíkt væri réttmætt, en komumst eiginlega að þeirri niðurstöðu að það passaði kannski ekki alveg inn í okkar menningu. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvaða leið sé rétt til að hvetja fólk til að blása í flautuna.

Svo er annað. Ég hef skoðað þetta aðeins með þýskum prófessor í afhjúpendafræðum, Thomas Hoeren, og hann benti á að þetta væri kannski aðeins of víðtækt. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur heyrt þá gagnrýni eða hvort hann sé sammála því að kannski þyrfti að þrengja þetta. Jafnvel þyrfti að skoða betur löggjöf um persónufrelsi, löggjöf um höfundarétt og löggjöf um vinnuvernd. Prófessorinn nefndi sérstaklega þessar löggjafir í tengslum við það sem þyrfti að skoða í samhengi við löggjöf um afhjúpendur eða uppljóstrara. Ég geri ráð fyrir því að við munum kalla eftir umsögn frá þessum ágæta prófessor þannig að hann geti bent okkur á hvað það er sem við þurfum að skoða. Ég geri mér sjálf ekki alveg grein fyrir hvað hann er að vísa í. En mig langaði að heyra hvort hv. þm. — þetta „háttvirtur“ er að fara með mig — Róbert Marshall hafi heyrt af þessu og skoðað þetta.

Í stýrihópnum sem ég nefndi er verið að leggja lokahönd á tillögur um uppljóstrara eða afhjúpendur, hvernig svo sem fólk vill þýða þetta orð, „whistleblower“, og það kemur skýrsla frá hópnum í maí. Ég velti fyrir mér hvort þingmanninum finnist ekki skynsamlegt að hvetja stýrihópinn til að skoða sérstaklega þetta frumvarp og hvort hægt er að fylla betur upp í ef frekari útfærslu vantar á afhjúpendalöggjöfina. Markmiðið hlýtur að sjálfsögðu að vera að fá bestu mögulegu afhjúpendalöggjöfina, hvaðan svo sem hún kemur.

Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég er pínulítið hissa á að mér var ekki boðið að vera með á þessu máli því að ég hefði svo sannarlega verið með á því og ég hef líka unnið við blaðamennsku. En ég fagna þeirri vinnu sem unnið hefur verið í kringum þetta frumvarp og í því eru mjög margar góðar tillögur. Ég hlýt þó að benda á að mjög mikið af þessari vinnu er að eiga sér stað, hefur átt sér stað eða er orðin að lögum.