141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

453. mál
[17:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er mjög ánægð með allan þrýsting því að það er svo sannarlega mjög mikilvægt að þrýsta á að þetta verði að veruleika. Í raun og veru fór menntamálaráðuneytið þá leið að stofna þennan stýrihóp út af því að afhjúpendalögin eru til dæmis í innanríkisráðuneyti og það hefur gengið mjög illa að fá innanríkisráðuneytið til þess að framkvæma það sem þeim ber skylda til samkvæmt þingsályktuninni. Það fór í raun og veru ekkert að hreyfast að ráði fyrr en þessi mjög svo góði stýrihópur fór af stað. Ég er mjög vongóð um að við náum stórum hluta af þessum breytingum, ég veit ekki hve miklum en það fer eiginlega eftir því hvers konar hryðjuverk fara í gang núna á næstu dögum af hálfu þeirra sem skilgreina sig sem stjórnarandstöðu.

Ég vona að við náum að koma með einhvern grunn áður en þetta þing er búið og að hægt verði að nýta sér margt af þeirri vinnu sem hér er því að hún er mikilvæg og miklum mun ítarlegri en sú vinna sem átti sér stað þegar við settum saman áðurnefnda þingsályktun.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki hlynntur því að við reynum að nýta eitthvað af því sem hér er ef frumvarpið næðist ekki út úr nefnd eða eitthvað slíkt því að við vitum ekkert hvernig næstu dagar þingsins fara.