141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að kveðja mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu sem féll síðastliðinn mánudag. Það er þýðingarmikið í þessu efni að hér er um bindandi dóm að ræða en ekki aðeins lögfræðiálit eins og látið hafði verið liggja að í málflutningi sumra fyrir fram. Röð atvika, atburðarás yfir langan tíma, hefur leitt til þeirrar ánægjulegu stöðu sem við erum í í þessu máli nú. Upphafið verður að sjálfsögðu rakið til óábyrgrar hegðunar stjórnenda Landsbankans hvað varðar innlánsreikninga í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi.

Við hrun bankakerfisins varð þetta ólánsmál eitt stærsta úrlausnarefni Íslands gagnvart umheiminum. Strax í upphafi málsins ákvað Alþingi að freista lausna með samningum, þó að því hafi ávallt verið haldið til haga að ágreiningur væri um skuldbindingar hvað þetta varðar. Viðleitni Íslands til samninga voru forsenda endurreisnarinnar. Sú viðleitni varð til þess að við gátum haldið okkur á floti. Um þetta atriði var að sjálfsögðu deilt hér í þingsal og úti í samfélaginu, deilt var um áhættuna því að óvissan í málinu var alla tíð mikil á alla kanta og hún var það alveg fram á síðasta dag. Ef við hefðum ekki haldið okkur á floti með þeim hætti sem við gerðum eru líkur á því að varnaðarorð þáverandi hæstv. forsætisráðherra í október 2008, um yfirvofandi þjóðargjaldþrot, hefðu orðið að veruleika

Gæfa þjóðarinnar er hins vegar hvernig atburðarásin varð fyrir tilviljun í fullkominni óvissu að við sýndum í verki vilja til lausna, að það var umdeilt, andstaða var við málið, þjóðin hafnaði samningum, ákvörðun ESA um málshöfðun var afleiðing af síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þannig var það röð atvika, tilviljun, því að enginn vissi í raun hver þróunin yrði og hver áhættan væri. Ég tel að það sé ástæða þess að við fengum þennan dóm að lokum. Það er ánægjuleg niðurstaða sem við öll eigum hlutdeild í, hvert með sínum hætti, sem við eigum að samgleðjast yfir. Ég geri það sjálfur, fyrir mína hönd, einlæglega.