141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með síðasta hv. ræðumanni að þetta er mikið gleðiefni og það er líka ánægjulegt að heyra þennan tón sem kemur fram hjá hv. þingmanni sem og stjórnarliðum. Það er svolítið mikil breyting frá því sem var áður.

Mikil áhersla er lögð á að vera ekki að leita að neinum sökudólgum í þessu máli. Það getur verið mjög skynsamlegt að leggja málið þannig upp. Ekki græðum við á því, íslensk þjóð, að vera endalaust að karpa um slíka hluti eða benda á fólk. En svo mikið er víst að í málflutningi stjórnarliða er holur hljómur á meðan þeir biðja ekki þá aðila sem þeir hafa ofsótt afsökunar. Vísa ég þá sérstaklega til þess aðila sem hv. þingmaður var að hrósa í ræðu sinni án þess að nefna hann á nafn, sem er fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde. Ef hv. stjórnarliðar vilja vera sjálfum sér samkvæmir og vilja sýna að einhver meining sé á bak við orð þeirra þá verða þeir að ganga þá leið.

Því miður misferst okkur í störfum okkar og hér í morgun, á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar, var upplýst að mestu áhyggjur okkar varðandi gengislánamálið ættu við rök að styðjast. Nú er það ljóst að vegna þess að frumvarp okkar sjálfstæðismanna, sem hv. þáverandi þingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, flutti fyrst 24. júní 2010, var ekki samþykkt þá fáum við ekki niðurstöðu í þau mál fyrr en 20l4 þvert á allar yfirlýsingar sem hér hafa komið fram. Það eru mjög slæmar fréttir fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu.