141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulega við þessa pontu er að hægt er að tala um margt og mikið en ekki staldra aðeins við einn hlut. Mig langar að ræða um málefni listafólks í þessu landi. Eilíflega er verið að hnýta í þessa einu starfsgrein fyrir það eitt að listamenn þiggi starfslaun upp á nokkur hundruð milljónir króna samtals. Ég skil ekki alveg þessa umræðu. Listafólkið í landinu breikkar samfélagið til muna og auðgar það á allan hátt. Það er með ólíkindum að menn skuli staldra við þessa einu starfsstétt í samfélaginu og nota um hana hnjóðsyrði þegar við höfum í huga margar aðrar stéttir sem þiggja laun frá ríkinu, nærtækast væri að nefna bændur, sem fá á annan tug milljarða króna.

Ekki ætlast ég til þess að birtar séu myndir af þeim eða höfð um þá hnjóðsyrði sem þiggja styrk frá ríkinu í formi beingreiðslna, hvort heldur um er að ræða sauðfjárbændur, kúabændur, að ekki sé talað um vísindamenn þjóðarinnar, rannsakendur sem þiggja styrki frá samfélaginu með einum eða öðrum hætti. Margt af þessu er mjög til góða og ekki síst það sem kemur í hlut listafólks sem breikkar samfélagið, auðgar samfélagið. Það er einmitt þetta fólk sem gefur hvað mest af sinni vinnu aftur til samfélagsins því að hverjir eru það sem gefa vinnu sína þegar efna á til þjóðhátíðar hér á Íslandi? Það eru einkum tónlistarmenn, ljóðskáld og rithöfundar sem gefa aftur vinnu sína til samfélagsins eftir að hafa fengið lítinn hluta af því sem aðrar starfsstéttir fá sem styrk til sinnar atvinnugreinar. Það er því með ólíkindum að menn leggi með orðum sínum, m.a. héðan úr þessum sal, ákveðnar stéttir nánast í einelti þegar kemur að sjálfsögðum styrkjum og starfslaunum til þeirra en setji svo hendina fyrir augað þegar kemur að miklu hærri styrkjum til annarra.