141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óska þingheimi og almenningi á Íslandi til hamingju með niðurstöðu í Icesave-málinu. Ég var fylgjandi því að leitað yrði samninga í þessu máli enda var staðan sú að ábyrg stjórnvöld þurftu að fara samningaleiðina í málinu. Það var forsenda endurreisnar hér eftir hrunið enda gerðu erlend ríki samningsviljann að forsendu þess að þau veittu erlenda fyrirgreiðslu.

Ég tek á hinn bóginn hatt minn ofan fyrir þeim sem voru á öndverðum meiði og óska þeim sérstaklega til hamingju með niðurstöðu dómsins frá því á mánudag. Þetta er farsæl niðurstaða í raun og veru vegna þess að okkur tókst að fara dómstólaleiðina um leið og við reyndum að ná samningi. Þess vegna getum við verið ánægð með þá niðurstöðu sem nú er fengin í málið og haft skilning á sjónarmiðum hvert annars eins og málið vannst.

Ég vona að við getum lært af ferlinu og virkjað þá niðurstöðu sem í málið hefur fengist til að líta í eigin barm og rækta og betrumbæta stjórnmálamenninguna.

Af því að leitað var til mín um viðhorf til stjórnarskrár vil ég endilega svara þeirri spurningu. Ég tel að nú sé komið að prófsteini í vinnu okkar í þessu stjórnarskrármáli. Getum við haft þá umræðu sem hér hefst síðar í dag á málefnalegum grunni, rætt kosti og galla þeirra tillagna sem fram eru komnar og áttað okkur á því hvort við getum náð samkomulagi um hvernig við viljum að stjórnarskrá Íslands líti út? Grundvöllur þess að við getum haft þá umræðu vitræna er að plaggið er komið frá nefndinni — (Gripið fram í: … Icesave.) Nú er ég að tala, hv. þingmaður. Grundvöllur þess að við getum tekið málefnalega umræðu í þessum þingsal er að plaggið er komið frá nefndinni og vonandi getum við haft skilning á sjónarmiðum hvert annars. Grundvöllur þess að við náum sátt er að við hlustum á hvert annað og reynum að ná málamiðlun sem allir aðilar geta staðið við og verið sáttir við. Vonandi náum við því í ferlinu fram undan.