141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom fyrr í umræðunni að sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar gerði ég ráðstafanir til að fá, að beiðni nefndarmanna, fulltrúa viðskiptabankanna þriggja og Dróma og Lýsingar til að fara yfir stöðuna í gengislánamálunum sem nokkuð var fjallað um í nóvembermánuði sl. Það er skemmst frá því að segja að það er mjög ólíkt hvar þessi mál eru stödd eftir því hvaða fyrirtæki eiga í hlut. Það er sérstakt fagnaðarefni að Íslandsbanki og Arion banki hafa gengið mjög rösklega til verks í endurútreikningum. Íslandsbanki mun á næstu vikum birta 7 þús. endurreikninga og á næstu mánuðum nærfellt 15 þús. endurreikninga og Arion banki sömuleiðis fleiri þúsund. Þessir viðskiptabankar telja sig í fullum færum til þess að endurútreikna og þurfa ekki frekari dóma til að gera upp nærfellt 20 þús. samninga.

Drómi hefur sömuleiðis unnið vel í sínum málum en eftir stendur það sem vísbendingar voru um hér í nóvember, að það getur varla heitið að Landsbankinn hafist að í þessum málum. Hann hefur aðeins endurreiknað nokkur hundruð samninga en bankinn er með tugi þúsunda samninga. Hann hefur þó ákveðið að áfrýja ekki því bílalánamáli sem hann tapaði fyrir áramótin heldur una þeim dómi og þess vegna liggur fyrir að eitt af þessum styttri lánum bankans hefur sætt dómi. Þetta er auðvitað áhyggjuefni.

Það er hins vegar misskilningur að lög um flýtimeðferð hefðu eitthvað greikkað fyrir þessu. Lögvarða fresti, bæði sóknar- og varnaraðila, er ekki hægt að taka af mönnum með lögum og það hefur ekkert staðið á dómstólum að flýta málum án lögþvingunar. Þeir hafa greitt fyrir framgangi mála og munu áfram gera það. Við munum liðka eins og kostur er fyrir þeim tveimur eða þremur málum sem eftir eru. Ég bind vonir við að stærstum hluta mála annarra aðila en Landsbankans (Forseti hringir.) og Lýsingar megi ljúka á fyrri hluta þessa árs.