141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að óska okkur öllum til hamingju með niðurstöðu Icesave-dómsins en ég er hins vegar mjög hugsi yfir því sem fram fer hér í þinginu. Hér koma sérstakir útsendarar stjórnarliða með söguskýringar eftir á, misgóðar reyndar, en ég held að það væri hollt fyrir okkur — það kom margoft hér upp í umræðunni þegar við vorum að fjalla um fyrstu og aðra Icesave-samningana — að velta því fyrir okkur hvers vegna við gátum ekki staðið saman um það hvernig leysa átti málið. Þetta voru sameiginlegir hagsmunir okkar sem þjóðar.

Ég var að velta því fyrir mér undir þessari umræðu: Höfum við komist eitthvað lengra? Það veldur mér miklum vonbrigðum þegar hv. þingmenn koma hingað upp og segja að þeir ætli ekki að líta í baksýnisspegilinn og það eftir að hafa farið með eitt ógeðfelldasta mál í sögu þjóðarinnar hér í gegn sem snýr að Landsdóminum. Að þeir skuli voga sér að segja það, það veldur mér miklum vonbrigðum. Og að halda að einhver trúi þessu endemiskjaftæði (Gripið fram í.) — eftir að hafa staðið fyrir pólitískum ofsóknum gegn einum manni og ætla að láta hann bera ábyrgð á öllu efnahagshruninu. Þetta er hreint með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll, við þær aðstæður sem við búum núna, að mjög mörg verkefni eru óleyst bæði á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi og fyrir næsta þing, mjög mörg óleyst verkefni. Ég bið okkur öll að hugsa um það og þá sem munu taka hér við. Við höfum mjög góð starfsskilyrði. Ég hugsa að fáir vinnustaðir hafi eins vandað starfsfólk og Alþingi Íslendinga, hvar sem er. En ætlum við að nýta okkur það til að taka á vandamálunum eða ætlum við að vera í þessum pólitísku frösum hér áfram? Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)